Hátíðarræða forseta á Hrafnseyri

Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid.
Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid. mbl.is/Hanna

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, heldur hátíðarræðu á Hrafnseyri við Arnarfjörð, fæðingarstað Jóns Sigurðssonar forseta, í tilefni af aldarafmæli fullveldis Íslands á laugardaginn.

Forseti mun jafnframt sækja hátíðarguðsþjónustu í Hrafnseyrarkirkju, vera viðstaddur frumflutning á tónverkinu Blakta eftir Halldór Smárason tónskáld sem kvartettinn Siggi frumflytur og leggja blómsveig að minningarsteini Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri, að því er segir í tilkynningu.

Þá mun forseti ásamt öðrum gestum fylgjast með leik íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu á HM í  Moskvu sem varpað verður á tjald.

Eftir landsleikinn mun forseti flytja ávarp við upphaf Háskólahátíðar á Hrafnseyri kl. 15 þar sem meistaranemendur í haf- og strandsvæðastjórnun verða útskrifaðir. Námið er samvinnuverkefni milli Háskólaseturs Vestfjarða og Háskólans á Akureyri.

Forseti mun sigla til Hrafnseyrar frá Reykjavík með varðskipinu Þór og verður lagt af stað síðdegis á morgun. Heimför er ráðgerð á laugardagskvöld.

Eliza Reid forsetafrú verður viðstödd landsleik Íslands og Argentínu á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu í Moskvu á laugardaginn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert