Skjálftahrina stendur nú yfir í norðanverðri Bárðarbungu, en hún hófst með skjálfta af stærðinni 4,1 klukkan 13.14 eftir hádegi. Nokkrir minni skjálftar fylgdu þá í kjölfarið og voru tveir þeirra yfir þremur stigum.
Annar og mun stærri skjálfti varð klukkan 15.05 en hann mældist 4,9 að stærð og er þar með sá stærsti sem orðið hefur á þessum slóðum frá því að gosi lauk við Bárðarbungu snemma árs 2015, og er jafnstór skjálfta sem varð 30. janúar í ár.
Engin merki eru sjáanleg um gosóróa, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands. Fullyrt er að náið sé fylgst með framvindu mála.