Skúraveður á meðan á leik stendur

Ísland spilar fyrsta leikinn á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu á morgun.
Ísland spilar fyrsta leikinn á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu á morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Búast má við skúraveðri á suðvesturhorninu á meðan leikur Íslands og Argentínu verður spilaður í Rússlandi. Þetta segir Óli Þór Árnason, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands. Hann segir að veður verði býsna þungbúið um hádegisbil á morgun nema á Vesturlandi og á sunnanverðum Vestfjörðum en þar verður aftur á móti norðaustan strekkingur.

„Svona skúraveður verða alltaf staðbundin og því gæti orðið hverfamunur,“ segir Óli Þór um veðrið á morgun og hvort búast megi við rigningu á þá sem ætli sér að horfa á leikinn t.d. í Hljómskólagarðinum eða Rútstúni í Kópavogi. Segir hann erfitt að sjá fyrir um hvar skúrirnar komi nákvæmlega niður fyrr en korteri fyrr.

„Fólk gæti lent í því að verða hundblautt en hann gæti hangið þurr. Það verður hægur vindur og engin sérstök hlýindi; átta, níu gráður,“ segir Óli.

17. júní, á sunnudag, er spáð austanátt og einhverri vætu um landið sunnanvert. „Það verður lengst af þurrt fyrir norðan, en einhverjar síðdegisskúrir,“ bætir hann við.

Hann segir að lægð nálgist landið úr suðri og þykknar þá upp á sunnanverðu landinu. „Það er ekki búist við því að skilin gangi yfir höfuðborgarsvæðið fyrr en aðfaranóttina átjánda,“ segir Óli.  „Þetta verður svolítið sami gírinn og verið hefur, hitinn ætti að ná 12 gráðum í Reykjavík, þetta er ekki alslæmt.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert