Eftir rúmlega klukkutíma verður Ísland fámennasta land í heimi til þess að spila á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu. Frumraun liðsins verður ekki á móti ómerkara landsliði en liði Argentínu með Lionel Messi í fararbroddi sem er af mörgum álitinn besti knattspyrnumaður samtímans og jafnvel frá upphafi.
Meðfylgjandi myndskeið tók Bjarni Páll Jakobsson á vellinum í Moskvu.
Íslensku stuðningsmennirnir komu saman í Zaryadye-garðinum í Moskvu í morgun og sungu þar og skemmtu sér saman. Bræðurnir Jón Jónsson og Frikki Dór tróðu meðal annars upp og Tólfan stýrði stuðningssöngvum.
Stuðningsmennirnir eru núna á leiðinni á völlinn þar sem leikurinn hefst eftir einn og hálfan tíma. Veðuraðstæður eru góðar í Moskvu, um 22 gráður og léttskýjað.