Segir auglýsingasölu RÚV samræmast lögum

Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri.
Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri. mbl.is/Þórður

Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins, telur vandséð að ójöfn samkeppni hafi verið fyrir hendi á auglýsingamarkaði í aðdraganda heimsmeistaramótsins í knattspyrnu. Þetta kemur fram í skriflegu svari hans til mbl.is.

Líkt og Morgunblaðið greindi frá í morgun telja forsvarsmenn sjónvarpsstöðvanna Hringbrautar og N4 að ójöfnuðar hafi gætt á auglýsingamarkaði í aðdraganda HM. Minni fjölmiðlar hafi þannig ekki átt möguleika þegar um sölu auglýsinga fyrir HM hafi verið að ræða.

Magnús Geir segir þó að vissulega séu erfiðleikar í auglýsingasölu hluta smærri fjölmiðla almennt, hvort sem það eru blöð, netmiðlar, útvarps- eða sjónvarpsauglýsingar. „RÚV er vissulega stærri miðill en bæði N4 og Hringbraut sem þýðir að staða á auglýsingamarkaði er ólík,“ segir í svari Magnúsar Geirs. 

Áhugi auglýsenda grundvallist á efninu

Við þeim ásökunum segir Magnús að RÚV sé vissulega stærri miðill en N4 og Hringbraut. Hann segir jafnframt að tekjur af auglýsingum í kring um HM skili sér einnig til annarra fjölmiðla. „Ef við horfum til reynslunnar af EM í Frakklandi fyrir tveimur árum, þá naut stöðin sem sýndi frá því móti, Sjónvarp Símans, þess í tekjum, en til viðbótar skiluðu EM-auglýsingar sér einnig til allra annarra fjölmiðla á Íslandi. Það sama er að gerast nú og segja má að áhugi auglýsenda grundvallist fyrst og fremst á efninu, þ.e. HM-mótinu sjálfu og landsliðinu, en ekki hvort mótið sé sýnt á einni stöð frekar en annarri.“

Magnús bendir á greiningu Hagstofunnar á íslenskum auglýsingamarkaði þar sem fram kemur að hlutdeild RÚV á markaðnum sé aðeins 15%.

Eftirspurn mikil eftir að auglýsa í kringum HM

Sigmundur Ernir Rúnarsson, dagskrárstjóri á vef- og sjónvarpsmiðlinum Hringbraut, sagði í samtali við Morgunblaðið í dag að RÚV hefði látið tilboðum rigna yfir markaðinn og auglýsingadeild RÚV hefði farið fram með offorsi. María Björk Ingvadóttir, framkvæmdastjóri N4 á Akureyri, tók í sama streng og sagði RÚV hafa „ryksugað þetta upp og verið klókir“.

Magnús gefur lítið fyrir það að RÚV hafi þurrkað upp samkeppni annarra fjölmiðla um auglýsingar, heldur segir hann sölu RÚV á auglýsingum hafa samræmst lögum og reglum.

„Það er alls ekki svo þó svo að vissulega sé mikil eftirspurn eftir því að auglýsa í kringum HM leikina, ekki síst þegar áhuginn og áhorfið er svo mikið sem raun ber vitni. Sama sást þegar Sjónvarps Símans sýndi leikina á EM fyrir tveimur árum. Auglýsingasala RÚV í tengslum við þetta stórmót var fyllilega í samræmi við lög. Þess má geta að sá rammi sem RÚV starfar innan á auglýsingamarkaði var þrengdur með lagabreytingu fyrir tveimur árum og þarf RÚV að afla þeirra sértekna sem því er ætlað að sækja með auglýsingum á afmarkaðri hátt en áður.“

Þá segir Magnús fyrirkomulag auglýsingasölu RÚV í þessu tilviki sambærilegt og þekkist í kringum slík stórmót, hvort heldur á RÚV eða öðrum sjónvarpsstöðvum hérlendis.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert