„Þetta er alls ekki heppilegt og þetta skapar afleitt fordæmi,“ segir Stefán Már Stefánsson, lagaprófessor og sérfræðingur í Evrópurétti, í samtali við mbl.is um þá ákvörðun stjórnvalda að fallast á að framsal framkvæmdavalds og dómsvalds til stofnana Evrópusambandsins með samþykkt persónuverndarlöggjafar sambandsins í gegnum EES-samninginn í síðustu viku.
Tekin var ákvörðun um að byggja innleiðingu löggjafarinnar ekki á tveggja stoða kerfi EES-samningsins sem er grundvöllur samningsins og snýst í stuttu máli um að aðildarríki samstarfsins sem ekki eru hluti Evrópusambandsins eigi ekki að vera undir vald stofnana sambandsins sett. Þess í stað eiga ríkin að heyra undir eftirlit stofnana sem haldið er úti af Fríverslunarsamtökum Evrópu (EFTA) sem ríkin, Ísland, Noregur og Liechtenstein, eiga þvert á móti aðild að.
Þess í stað felur persónuverndarlöggjöfin í sér að Persónuvernd á Íslandi heyri beint undir vald stofnunar Evrópusambandsins á sviði persónuverndarmála. Stefán Már veitti stjórnvöldum ráðgjöf vegna innleiðingar löggjafarinnar en fram kemur í álitsgerð hans í þeim efnum að hann teldi að ekki ætti að vinna áfram með þá leið sem síðan var farin við innleiðinguna.
Stefán Már benti í því sambandi á að ákvarðanir sem teknar væru af stofnun Evrópusambandsins væru afar einhliða en ákveðin gagnkvæmni væri mikilvægur þáttur við mat á mörkum leyfilegs framsals ríkisvalds samkvæmt stjórnarskránni. Þær væru einnig í andstöðu við tveggja stoða kerfið og á svig við þann fyrirsjáanleika sem gert hafi verið ráð fyrir við undirritun EES-samningsins.
Fyrir vikið fæli innleiðingin á persónuverndarlöggjöfinni í sér afleitt fordæmi. Hins vegar væri ekki hægt að fullyrða á heildina litið að málið stangaðist á við stjórnarskrána. Sú afstaða Stefáns Más er túlkuð þannig í greinargerð með þingsályktun Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra um samþykkt löggjafarinnar að hann hafi talið umrædda leið standast stjórnarskrána.
Aðspurður segir Stefán Már að þarna sé nokkuð frjálslega farið með. Ljóst má vera að orðalag hans felur hvorki í sér að innleiðingin standist stjórnarskrána né að hún geri það ekki. Bæði til að mynda Arnaldur Hjartarson, aðjúnkt við lagadeild Háskóla Íslands, og laganefnd Lögmannafélags Íslands í umsögn um málið hafa lýst því yfir að málið kunni að fara gegn stjórnarskránni.
Fram kemur ennfremur í greinargerð utanríkisráðherra að stjórnvöld hafi ekki talið fordæmisgildi málsins mikið vegna sérstöðu þess. Engu að síður hafi verið gefin út sérstök yfirlýsing aðila málsins um að málið skapaði ekki fordæmi vegna innleiðingar löggjafarinnar. Athygli vekur að einnig segir í greinargerðinni að fordæmi séu þegar fyrir því að fara þessa leið.
Stefán segir að þó slík sameiginleg yfirlýsing sé betri en ekkert sé hún ekki bindandi. Aðspurður segir hann ennfremur að það sé óneitanlega þversagnakennt að gefa út slíka yfirlýsingu, um að málið hafi ekki fordæmisgildi, á sama tíma og vísað sé í fyrri fordæmi.
Einnig kemur fram í greinargerðinni að Stefán Már hafi talið að þær leiðir sem skoðaðar hafi verið vegna innleiðingar persónuverndarlöggjafarinnar „vera misálitlega út frá því sjónarmiði að viðhalda tveggja stoða kerfi EES-samningsins.“ Þó segir afdráttarlaust í álitsgerð Stefáns að sú leið sem farin var sé að hans áliti „í andstöðu við það tveggja stoða kerfi sem EES-samningurinn byggir á“.
Fram kemur í greinargerð utanríkisráðherra að ekki hafi verið talin þörf á að fara þá leið að Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) héldi utan um framkvæmd persónuverndarlöggjafarinnar hér á landi í stað stofnunar Evrópusambandsins þar sem umræddar valdheimildir beindust aðeins að hinum opinbera hér á landi og stofnunum þess en ekki einstaklingum og lögaðilum.
Fram kemur í álitsgerð Stefáns Más að þetta sé ákveðið viðmið sem hafa verið í huga þegar heimildir til framsals valds séu metnar. Hins vegar segir hann í samtali við mbl.is að þar skipti miklu máli hvort um sé að ræða raunverulegar sjálfstæðar ákvarðanir stofnunar á vegum EFTA eða hvort hún sé í raun aðeins að afrita ákvarðanir stofnana Evrópusambandsins.
Þar er vísað til þess þegar stofnun á vegum EFTA tekur ákvörðun á grundvelli uppkasts frá stofnun Evrópusambandsins. „Ef um er að ræða stofnun sem tekur ekki sjálfstæðar ákvarðanir heldur hefur bara þann tilgang að stimpla eitthvað sem annar gerir, þá er tæplega unnt að ræða um aðra stoð. Þá er hún bara milliliður. Formlega tekur hún þá ákvörðun og það skiptir að vísu einhverju máli. Það sem mestu máli skiptir er þó að hún tekur enga sjálfstæða ákvörðun um efni málsins.“
Þannig geti verið að stofnun á vegum Evrópusambandsins sé í raun að taka ákvörðun sem beinist að einstaklingum og lögaðilum á Íslandi í gegnum EFTA-stofnun. Sama eigi við um Persónuverndarlöggjöfina. Ákvarðanir sem teknar eru af persónuverndarstofnun sambandsins og beint er að Persónuvernd á Íslandi kunni að leiða til ákvarðana sem varði slíka aðila.
Stefán Már segir mikilvægt að horfa heildstætt á það framsal valds sem átt hefur sér stað en ekki aðeins einstakar gerðir sem teknar eru upp í gegnum EES-samninginn. Samantekið séu slíkar gerðir sem teknar hafa verið upp í EES- samninginn eftir gildistöku hans að verða talsverður pakki. Þegar gætt sé að því að EES-samningurinn hafi á sínum tíma verið talinn á mörkum þess sem stjórnarskráin leyfði að því er varðar framsal ríkisvalds. Af því leiði að því séu takmörk sett hve mikið unnt sé að bæta við hann að óbreyttri stjórnarskrá.
Stefán Már segir ekkert hafa verið því til fyrirstöðu lagalega séð að farin væri sú leið að ákvarðanir varðandi persónuverndarlöggjöfina gagnvart EFTA/EES-ríkjunum væru teknar af stofnunum á vegum EFTA, sem ríkin ættu aðild að, í stað þess að þær væru teknar af ESB í andstöðu við tveggja stoða kerfi EES-samningsins.