Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins, mun leggja fram tillögu á fyrstu fundi nýrrar borgarstjórnar á morgun um afnám þóknunar borgarfulltrúa fyrir að sitja fundi í stjórnum, ráðum og nefndum sem haldnir eru á vinnutíma.
Í tillögunni segir meðal annars að kjörnir fulltrúar og stjórnendur Reykjavíkurborgar hafa þegið þóknanir fyrir stjórnar- og nefndarsetu í fyrirtækjum og stofnunum Reykjavíkurborgar þótt fundir fari fram í vinnutíma aðalstarfs viðkomandi. „Þessir starfsmenn hafa því í raun verið tvíborgaðir á meðan á fundum og undirbúningi fyrir þá stendur. Þetta er óþörf sóun á almannafé og ýtir undir sjálftöku stjórnenda hjá hinu opinbera,“ segir í tillögunni.
Fjallað var um tillöguna í kvöldfréttum Stöðvar 2. Þar sagði Sanna Magdalena að ef tillagan verði ekki samþykkt muni hún samt sem áður ekki þiggja aukagreiðslur frá borginni. Borgarfulltrúum er hins vegar ekki heimilt að afþakka laun en Sanna Magdalena segir að hún muni þá koma laununum til þeirra sem þurfa á þeim að halda.