Grímur Jóhannsson er á ferðalagi um Rússland og fer á alla leiki Íslands í riðlakeppninni. Hann var líklega með fyrstu Íslendingunum til þess að koma sér til Volgograd, þar sem Ísland leikur sinn næsta leik gegn Nígeríu á föstudag. Lestarferð hans frá Moskvu til Volgograd tók 23 tíma með sérstakri stuðningsmannalest og var hann eini Íslendingurinn um borð.
„Þar sem að leikurinn í gærkvöldi var á milli Englands og Túnis voru bara Englendingar og Túnisbúar í lestinni. Ég held að ég hafi verið sá eini sem var hvorugt,“ segir Grímur í samtali við mbl.is, en áður hafði hann lýst ferðalagi sínu til borgarinnar í hlaðvarpsþætti dagskrárgerðamanna Rásar 1, Gerska ævintýrinu.
„Ég lenti í klefa með þremur Englendingum, sem voru reyndar ekki þessir týpísku ensku stuðningsmenn, þessar ensku bullur sem við sjáum í sjónvarpinu, heldur 25 ára strákar, nýútskrifaðir úr Cambridge-háskóla,“ segir Grímur, en bætir við að stemningin um borð hafi heilt yfir verið ágæt.
„Túnismenn voru aðallega bara með öðrum Túnismönnum og Englendingarnir með hinum Englendingunum, það var ekki mikill svona „banter“ á milli þeirra en það var alveg sungið og svoleiðis, en svo var bara mjög góð öryggisgæsla,“ segir Grímur.
Lestin lagði af stað frá Moskvu upp úr hádegi á sunnudag og var komin til Volgograd laust fyrir hádegi í gær og segir Grímur að hún hafi stoppað margoft á leiðinni án þess þó að farþegum væri hleypt út. Það telur Grímur væntanlega vera vegna þess að þessar sérstöku stuðningsmannalestir, sem bjóðast stuðningsmönnum liðanna þeim að kostnaðarlausu, séu aukalestir í rússneska lestarkerfinu og þurfi að víkja af teinunum fyrir venjulegu lestunum.
En var þessi langa lestarferð besta leiðin til að ferðast á milli leikstaðanna?
„Þetta var náttúrlega ókeypis, þannig að það spilaði inn í, en líka var það svona pæling að þetta gæti verið gaman, að hitta aðra stuðningsmenn og tala við þá og kynnast fólki og taka þátt í HM-stemningunni,“ segir Grímur.
Aðalástæðan fyrir því að Grímur valdi lestina var þó sú að konan hans, sem starfað hefur við mál tengd flugsamgönguöryggi í tengslum við reglugerðir Evrópusambandsins þar að lútandi, ráðlagði honum að láta rússneskt innanlandsflug eiga sig.
„Hún í rauninni ráðlagði mér bara mikið að fljúga ekki innanlands og fyrst að hún var svo góð að leyfa mér að fara í þetta ferðalag ákvað ég að taka þessu ráði og taka bara lestarferðir,“ segir Grímur en hann og kona hans eru búsett í Brussel.
Hann ferðaðist þaðan einn og er einn á þessu mikla ferðalagi um Rússland.
„Ég skipulagði ferðalagið bara sjálfur. Það var enginn tilbúinn að fara í þetta „all-in“ þegar ég var að skipuleggja þetta bara í febrúar eða eitthvað,“ segir Grímur en bætir við að hann hitti einhverja félaga á öllum leikstöðum.
„Ég á von á félögum sem ég þekki held ég á morgun, en ég á von á að Íslendingar fari að týnast inn kannski í dag eða jafnvel á morgun,“ segir Grímur, sem hefur ekki orðið var við marga Íslendinga né Nígeríumenn í borginni hingað til.
Grímur segir að borgin beri það ekki með sér að hún hafi verið einn mannskæðasti vígvöllur síðari heimstyrjaldarinnar, en baráttan um Stalíngrad, eins og borgin hét þá, kostaði um tvær milljónir Þjóðverja og Sovétmanna lífið á árunum 1942-3.
Borgin var að sjálfsögðu algjörlega í rúst eftir þau átök og byggð upp að nýju eftir styrjöldina og Grímur segir að við fyrstu sýn virðist enginn afmarkaður miðbær vera í borginni, sem teygir sig meðfram bökkum Volgu.
„Ég hef ekki tekið eftir neinum almennilegum miðbæ, þetta eru bara götur og blokkir og byggingar og kannski einn og einn veitingastaður hér og þar og einn og einn bar hér og þar, en ég hef ekki fundið neinn svona miðbæ, sem er svolítið skrítið, ég hafði ekkert pælt í því áður en ég kom,“ segir Grímur.
Hann hefur þó gengið fram hjá Fan Zone-inu í borginni sem verður væntanlega miðstöð íslenskra stuðningsmanna er nær dregur leik og segir það líta vel út, en þar eru allir leikir mótsins sýndir á risaskjám.
Mikið flugnager hefur verið í Volgograd síðustu daga og setti það svip sinn á viðureign Englands og Túnis í gær, þar sem ensku stjörnurnar böðuðu út öllum öngum fyrir leik og á meðan honum stóð, auk þess sem Harry Kane, markaskorari liðsins, sagðist í viðtali eftir leik hafa gleypt flugu.
„Ég tók eftir því eiginlega um leið og ég kom út úr lestinni að það væri mikið af einhverjum mýflugum, sem eru að þvælast fyrir þér og í andlitinu á þér. En það virðist vera minna af þeim í dag en í gær. En ég las einhversstaðar að rússnesk yfirvöld væru að reyna að hafa stjórn á þeim, ég veit reyndar ekki hvernig þau fara að því að stjórna því hvað það er mikið af flugum á einhverjum stað,“ segir Grímur og hlær.
„En þær hafa allavega ekki bitið mig hingað til, sem ég held að sé gott. Þær bara fara í andlitið á manni og maður slær þær frá. Þetta er ekkert verra en á Mývatni,“ segir Grímur, sem óttast ekki að honum leiðist í borginni fram að leik, þrátt fyrir að hún sé kannski ekki jafn spennandi og höfuðborgin Moskva.
„Þegar ég ákvað að vera fimm daga í Volgograd fór ég svona aðeins að pæla í því hvað ég ætti að gera og það var annað hvort að fara í mikið „research“ um hvað maður geti gert eða bara að dóla sér. En síðan bara hugsaði ég, það er alltaf fótbolti í gangi, ef mér leiðist þá er bara alltaf hægt að horfa á fótbolta og þá leiðist manni ekki lengur.“