„Maður verður að taka þetta alla leið, það þýðir ekkert annað,“ segir Ýr Sigurðardóttir sem fór alla leið með HM-hárgreiðsluna í ár, en rakarinn hennar, Fabian á stofunni Jacas í Orlando í Bandaríkjunum, lét höfuð Ýrar líta út eins og fótbolta.
„Hann rakaði fimmu í hárið á mér fyrir EM kvenna í fyrra þannig að ég leitaði aftur til hans,“ segir Ýr, en hún er móðir Gunnhildar Yrsu Jónsdóttur, landsliðskonu í knattspyrnu. Ýr er mikil knattspyrnuáhugamanneskja. „Ég þykist alltaf vita allt betur en þeir sem eru að spila. Það gengur alltaf betur hjá mér að skipuleggja hvernig eigi að fara upp völlinn,“ segir hún og hlær.
Ýr segist þó aðallega vera aðdáandi íslenska kvennalandsliðsins af augljósum ástæðum. Aðspurð þverneitar hún því þó að Gunnhildur Yrsa hafi fengið knattspyrnuáhugann með móðurmjólkinni. „Nei, nei, þetta var öfugt. Ég hafði engan áhuga á knattspyrnu fyrr en hún byrjaði fyrir algjöra hendingu til þess að kynnast krökkunum í hverfinu þegar við fluttum til Bandaríkjanna.“
„Ég hafði mestan áhuga á að finna mér þægilegan stól til þess að sitja í á hliðarlínunni. Ég var nú ekki mikið að skipta mér að. Svo er þetta bara svo skemmtilegt á margan hátt að maður sogast alveg inn í þetta.“
Ýr er læknir á barnaspítala í Orlando og furðuðu margir sig á því að hún ætlaði að mæta svona í vinnuna. Ýr vann þó aðeins hálfan dag með hárgreiðsluna áður en hún flaug heim til Íslands. „Ég held þeir hafi nú jafnað sig,“ segir hún og játar því að Bandaríkjamenn séu eflaust svolítið súrir að hafa sjálfir ekki komist í úrslitakeppnina.
Komist kvennalandsliðið á HM á næsta ári veit Ýr ekki hvað hún á að gera til þess að toppa hárgreiðsluna, en hún ætlar í hið minnsta að endurtaka þessa klippingu. „Fyrst Fabian gat þetta einu sinni þá getur hann þetta aftur. Ég sé líka að ég er með mjög fótboltalaga haus,“ segir Ýr hlæjandi að lokum.