„Þetta hefur verið að gerjast hjá mér í nokkra mánuði,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands. Á fundi miðstjórnar ASÍ í dag gerði hann grein fyrir því að hann ætlar ekki að gefa kost á sér til endurkjörs á 43. þingi ASÍ sem haldið verður 9. október.
Gylfi hefur verið gagnrýndur af stjórnendum nokkurra aðildarfélaga ASÍ að undanförnu og lagði formaður VR fram vantrauststillögu á Gylfa í maí. Í yfirlýsingu sinni á fundi miðstjórnar í dag sagðist Gylfi alltaf tilbúinn að berjast fyrir og berjast með félögum sínum, en að hann væri ekki tilbúinn að berjast gegn þeim.
„Undanfarna mánuði hefur verið að gerjast í kolli mínum hvað væri skynsamlegast, ekki bara fyrir sjálfan mig, heldur hef ég lagt mat á hreyfinguna og hvað er henni fyrir bestu.“
Gylfi segir óljóst hvað taki við hjá honum eftir þing sambandsins í október, en að það verði ekki innan ASÍ. Hann hefur starfað innan ASÍ síðan 1989, fyrst sem hagfræðingur, síðar sem framkvæmdastjóri og loks sem forseti til tíu ára.