Landsréttur hafnaði í dag kröfu Atla Helgasonar um að fella niður sviptingu á málflutningsréttindum hans. Dómurinn sneri með því við úrskurði héraðsdóms sem tók kröfur hans til greina. Atli verður því áfram sviptur málflutningsréttindum sínum, en hann var dæmdur í 16 ára fangelsi árið 2001 fyrir að hafa orðið manni að bana.
Atli Helgason var með dóminum sviptur leyfi til málflutnings fyrir héraðsdómi með vísan til niðurlags 2. mgr. 68. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Honum var veitt reynslulausn frá og með 22. maí 2011 skilorðsbundið í fjögur ár.
Atli lagði fram kröfu um að öðlast málflutningsréttindi sín að nýju eftir að dómur í máli Róberts Downey Hreiðarssonar um endurheimt málflutningsréttinda var kveðinn upp fyrir um ári.
Í niðurstöðu Landsréttar var m.a. vísað til þess að bú Atla var tekið til gjaldþrotaskipta árið 2001 og hafi Lögmannafélag Íslands hafnað því að mæla með því að Atla yrði veitt undanþága frá því skilyrði lögmannalaga að málflutningsréttindi megi aðeins veita þeim sem aldrei hafi orðið að sæta því að bú hans sé tekið til gjaldþrotaskipta, sbr. 2. tl. 1. mgr. 6. gr. laganna.
Þá hafi niðurstaða Lögmannafélagsins verið ítarlega rökstudd, m.a. á þá leið að Atli hafi ekki gætt að reglum um fjárvörslu lögmanna í fyrri tíð, veitt ónógar upplýsingar um fjárhag sinn, og eins og þar segir, leitast við að komast hjá réttindasviptingu með liðsinni annarra lögmanna í andstöðu við lög og siðareglur.
Þá segir í forsendum dómsins að almannahagsmunir krefjist ótímabundinnar sviptingar lögmannsréttinda Atla enda byggist hún á að nauðsyn þess að almenningur beri fullt traust til þeirra sem starfinu gegna.