Jón Steinar ekki sekur um ærumeiðingar

Jón Steinar Gunnlaugsson.
Jón Steinar Gunnlaugsson. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, var í Héraðsdómi Reykjaness í dag sýknaður af kröfu Benedikts Bogasonar, hæstaréttardómara, í meiðyrðamáli sem sá síðarnefndi höfðaði í fyrra.

Benedikt fór fram á að eftirtalin ummæli, sem Jón Steinar viðhafði um hann á blaðsíðum 61, 63 og 114 í ritinu „Með lognið í fangið - Um afglöp Hæstaréttar eftir hrun“, útgefnu í Reykjavík 2017,yrðu dæmd dauð og ómerk: 1. Dómsmorð (bls. 61), 2. Dómsmorð (bls. 63), 3. Ég hika ekki við að segja að á Baldri hafi við meðferð Hæstaréttar verið framið það sem kallað hefur verið dómsmorð (bls. 63), 4. Þessi skilgreining á vel við málið gegn Baldri. Felldur var dómur, sem dómararnir vissu, eða að minnsta kosti hlutu að vita, að ekki stóðst hlutlausa lagaframkvæmd (bls. 63) og 5. Þar voru færð rök að því að meirihluti réttarins hefði fellt dóm yfir ákærða sem að mínum dómi félli undir hugtakið dómsmorð eins og það hefur verið skýrt (bls. 114).

Benedikt fór fram á að fá greiddar tvær milljónir króna úr hendi Jóns Steinars í miskabætur. Gunnar Aðalsteinsson, héraðsdómari, kvað upp dóminn. Málskostnaður féll niður fyrir héraðsdómi.

Benedikt byggði málssókn sína á því að ummælin „dómsmorð“ séu ærumeiðandi aðdróttanir eins og þau birtast í framangreindum kafla bókarinnar um mál Baldurs Guðlaugssonar og ennfremur þar sem þau birtast í sama samhengi á blaðsíðu 114 í bókinni. Byggði hann á því að leggja verði til grundvallar tilvitnaða skilgreiningu J. B. Hort, sem stefndi vísar til í riti sínu, á því hvað felst í hugtakinu „dómsmorð“.

Jón Steinar hafi með þessari tilvitnun að mati Benedikts fullyrt að sá síðarnefndi hafi af ásetningi komist að rangri niðurstöðu í dómsmáli með þeim afleiðingum að saklaus maður hafi verið sakfeldur og dæmdur í fangelsi. Ásökun Jóns Steinars sé því ásökun um refsiverða háttsemi.

Á þetta féllst dómari ekki og segir að þrátt fyrir að Jón Steinar taki sterkt til orða í bókinni þá saki hann Benedikt hvergi um refsivert athæfi. Né heldur sé þeim beint að Benedikt persónulega heldur Hæstarétti í heild.

„Líta verður til þess að stefndi dregur nokkuð úr skoðun sinni um að dómsmorð hafi verið framið þegar hann segir í framhaldi af tilvitnun sinni í hinn norska lögfræðing: „Felldur var dómur, sem dómararnir  vissu, eða að minnsta kosti hlutu að vita, að ekki stóðst hlutlausa lagaframkvæmd.“ Þrátt fyrir framangreinda skilgreiningu J. B. Hort, en bók hans kom út í íslenskri þýðingu 1954, verður einnig að hafa í huga, eins og stefndi hefur sýnt fram á, að orðið „dómsmorð“ hefur í almennri umræðu síðustu áratugi verið notað í þeirri merkingu að dómstóll hafi komist að rangri niðurstöðu. Sérstaklega hafa dæmdir sakborningar, sem hlotið hafa refsingu, notað orðið í þeirri merkingu að þeir hafi saklausir verið dæmdir til refsingar. Verjendur þeirra og aðrir lögmenn hafa einnig í almennri umræðu komist svo að orði að niðurstaða refsidóms hafi verið dómsmorð og þá átt við að ákærði hafi verið sakfelldur án þess að hafa til sakar unnið.  

 Almennt gildir rúmt tjáningarfrelsi um starfsemi dómstóla vegna þjóðfélagslegs mikilvægis þeirra. Játa verður stefnda rúmt tjáningarfrelsi um þá dóma Hæstaréttar sem fjalla um sakamál eftir bankahrunið haustið 2008, þ. á. m. hvort réttarkerfið hafi staðist þrýsting og reiði almennings í kjölfar hrunsins en það er skoðun stefnda að svo hafi ekki verið.

 Við mat á því hvort hin umstefndu ummæli séu gildisdómur eða staðhæfing um staðreyndir verður að meta skrif stefnda í heild sinni. Verður að skoða hin umstefndu ummæli í samhengi við umfjöllun hans í heild í þessum kafla bókarinnar en þar leitast hann við að rökstyðja og gagnrýna út frá lögfræðilegum sjónarmiðum þá skoðun sína að meirihluti Hæstaréttar hafi komist að rangri niðurstöðu í máli Baldurs Guðlaugssonar og að rétt aðferðarfræði, samkvæmt hans skoðun, sem hann rökstyður í bók sinni, hefði leitt til annarrar niðurstöðu.

Hvergi í þessum kafla bókarinnar  er stefnandi, eða aðrir þeir dómarar, sem áttu sæti í umræddu dómsmáli, sakaður um refsiverða háttsemi. Stefndi tekur í riti sínu stundum sterkt til orða í gagnrýni sinni á Hæstarétt en þegar umfjöllun hans er virt í heild verður talið að hann hafi notað hugtakið dómsmorð í óeiginlegri eða yfirfærði merkingu, aðallega til þess að leggja áherslu á orð sín. Verður því talið að umfjöllun stefnda í heild sinni feli í sér ályktun hans eða gildisdóm um framangreindan dóm Hæstaréttar en ekki staðhæfingu um að refsivert brot hafi verið framið.

Þá er einnig til þess að líta að hin umstefndu ummæli og umfjöllun stefnda í framangreindum kafla bókarinnar er gagnrýni á störf Hæstaréttar en beinast ekki að stefnanda persónulega. Nafn hans er ekki nefnt í þessum kafla bókarinnar að öðru leyti en því að nafna dómenda, er sátu í dómi í máli Baldurs Guðlaugssonar, er getið.

 Þegar allt framangreint er virt verður ekki talið að í ummælum stefnda hafi falist refsiverð ærumeiðing samkvæmt 235. og 236. gr. almennra hegningarlaga. Að gættum rétti stefnda samkvæmt 2. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar verða ummælin því ekki ómerkt. Stefndi verður því sýknaður af kröfum stefnanda í málinu. Rétt þykir að málskostnaður falli niður milli aðila,“ segir í dómi Héraðsdóms Reykjaness en hér má lesa dóminn í heild.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert