Víða um land nýttu bændur heiðríkju og sólskin vel og hófu slátt í gær. Í Stóru-Sandvík í Árborg hófst sláttur í fyrradag en gærdagurinn var nýttur til hirðingar.
„Þetta lítur ágætlega út en það er ótíð. Það er rigning í fyrramálið og við keppumst við að ná þessu,“ sagði Ari Páll Ögmundsson, bóndi í Stóru-Sandvík.
Á myndinni er sonur hans, Sverrir Pálsson, að raka saman heyinu og Eyjafjallajökull tignarlegur í baksýn.