„Þurftu bara nánast ekkert að sminka mig“

Guðmundur í hlutverki Pútíns í HM-auglýsingu Icelandair.
Guðmundur í hlutverki Pútíns í HM-auglýsingu Icelandair. Ljósmynd/Aðsend

Guðmundur Kr. Ragnarsson, matreiðslumaður í Reykjavík, þykir keimlíkur Vladimír Pútín, forseta Rússlands. Hann lék Pútín í HM-auglýsingu Icelandair og var valinn í það verkefni fram yfir mann sem hefur það að aðalstarfi að bregða sér í gervi Pútíns. Líkindin við Pútín komu Guðmundi næstum í klípu í Kænugarði í maí.

„Þeir áttu ekki til orð þarna úti þegar þeir sáu mig. Þeir þurftu bara nánast ekkert að sminka mig,“ segir Guðmundur, sem fór til Ameríku til þess að leika í auglýsingu Icelandair er íslenska landsliðið var statt vestanhafs í mars. Í auglýsingunni, sem sjá má hér að neðan, er Guðmundur í hlutverki Pútíns, sem færir íslenska landsliðinu gullstyttuna í ljúfum draumi Harðar Björgvins Magnússonar.

Hlutverkið fékk hann óvænt í gegnum tengsl sín í kvikmyndabransanum, en Guðmundur hefur eldað ofan kvikmyndagerðarfólk hér á landi um langt skeið.

Guðmundi hefur verið líkt við Pútín allt frá því að hann tók við stjórninni í Rússlandi laust fyrir aldamót.

„Vinir mínir eru búnir að gera grín að mér í 20 ár. Það er bara þannig. Ég hef ekkert verið að spá í þessu, hef bara alltaf tekið þessu sem gríni,“ segir Guðmundur, eða Gummi kokkur eins og hann er oft kallaður.

Nú er grínið orðið nokkuð áþreifanlegur veruleiki og segir Guðmundur að rætt hafi verið við hann um möguleikann á því að taka að sér fleiri verkefni sem eftirherma Pútíns.

Bæði Guðmundi og Vladimír þykir gaman að veiða.
Bæði Guðmundi og Vladimír þykir gaman að veiða. Mynd/Samsett

„Það er búið að segja við mig alveg helling en ég vil ekki að gefa neitt upp fyrr en að því kemur. Þeir í Ameríku eru alveg brjálaðir í að fá mig aftur,“ segir Guðmundur.

Ekki gott að vera líkur Pútín í Úkraínu

Líkindin við Pútín geta þó verið til vandræða, eins og Guðmundur fékk að reyna í Kænugarði í Úkraínu í vor er hann fór þangað og fylgdist með Real Madrid mæta Liverpool í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu.

„Ég var á veitingastað og þá voru Úkraínumennirnir byrjaðir að líta eitthvað rosalega á mig og byrjaðir að taka myndir af mér. Það var bara allt að fara í gang, af því að þeir héldu bara að Pútín væri mættur á svæðið. Ég setti bara á mig gleraugu og húfu og lét mig hverfa. Þetta var rosalegt alveg,“ segir Guðmundur, sem lenti einnig ítrekað í því að stuðningsmenn Liverpool vildu fá sjálfsmyndir með honum á götum úti í Kænugarði.

„Þá runnu á mig tvær grímur því að hann er náttúrulega nýbúinn að ráðast inn í Úkraínu. Og ekki vildi ég láta skjóta mig þarna. Ég var eiginlega bara hálfhræddur sko. Þetta var mjög skrítin tilfinning,“ segir Guðmundur.

Aðspurður hvort hann ætli ekkert að fara á HM í Rússlandi þar sem líkindin við Pútín myndu eflaust vekja athygli segir Guðmundur að það sé ekki stefnan, en að það væri kannski eina vitið að fara þangað með mönnum sem væru klæddir sem lífverðir og „gera allt brjálað“.

En hvort er það gott eða slæmt að vera svona líkur þessum manni?

„Ég hef bara gaman að þessu. Ég þarf bara að fara vel með þetta,“ segir Guðmundur sem er ánægður með hvernig auglýsing Icelandair kom út. Hann er líka með ánægður með auglýsinguna, sem hann segir að engum öðrum myndi detta í hug að gera en Íslendingum.

„Það er annað að fá þessa hugmynd [að sýna Ísland vinna HM] og svo að hafa þor í að gera hana,“ segir Guðmundur, sem hefur, eins og lesendur ef til vill skynja, gaman af þessu öllu saman.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert