Kona á þrítugsaldri var flutt með sjúkrabifreið á slysadeild Landspítalans að kvöldi síðastliðins föstudags eftir að hafa orðið fyrir hraðskreiðu götuhjóli.
Afleiðingar slyssins voru þær að konan skall í jörðina og höfuðkúpubrotnaði. Þetta staðfestir Guðmundur Páll Jónsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt heimildum mbl.is blæddi auk þess inn á framheila konunnar við slysið.
Slysið átti sér stað í íbúðagötu í Vesturbæ Reykjavíkur og var lögregla kvödd á staðinn ásamt sjúkraliði. Betur fór en á horfðist en konan var útskrifuð af Landspítalanum á þriðjudag samkvæmt heimildum mbl.is.
Rannsókn stendur yfir hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu vegna málsins.