53% líkur á að Ísland komist áfram

mbl.is/Eggert

53% líkur eru á að íslenska landslið komist upp úr riðlinum á HM. Þetta er niðurstaða HM-hermis mbl.is, en hann byggist á 100.000.000 hermunum á úrslitum þeirra þriggja leikja sem eftir eru í riðli Íslands, Nígería-Ísland, Ísland-Króatía og Argentína-Nígería. Notast var við stuðla veðmálafyrirtækja til að meta líkurnar á mögulegum útkomum, eins og lesa má um nánar neðar í fréttinni.

Eftir óvæntan sigur Króata á slöku liði Argentínu í gær er D-riðill Heimsmeistaramótsins galopinn. Króatar eru einir á toppnum með sex stig, Íslendingar og Argentínumenn hafa eitt stig og Nígeríumenn reka lestina stigalausir enda aðeins spilað einn leik og tapað. Tvö efstu lið riðilsins komast áfram í 16-liða úrslit og hafa Króatar þegar tryggt sér farseðilinn þangað. Spurningin er bara hvort þeir lenda í fyrsta eða öðru sæti og hvaða lið það verður sem fylgir þeim upp: Argentínumenn, Nígeríumenn eða strákarnir okkar.

Möguleikar Íslands (53,1%)

Íslendingar eru líklegastir þjóðanna þriggja til að fylgja Króötum upp. Samkvæmt HM-herminum eru 14,3% líkur á að Íslendingar vinni riðilinn sinn. Til þess kemur ekkert annað til greina en að strákarnir vinni báða leikina sem eftir eru, gegn Nígeríu í dag og Króötum á þriðjudag. Það væri auðvitað ákjósanlegast, en þá mætum við liðinu úr öðru sæti C-riðils í 16-liða úrslitum, hugsanlega Dönum. Króatar yrðu þá að gera sér annað sætið að góðu.

Líklegast þykir að Íslendingar lendi í öðru sæti, eða 38,7% líkur. Króatar myndu þá vinna riðilinn og mótherji okkar í 16-liða úrslitum yrði topplið C-riðils, sem er eins og stendur Frakkland. Íslenska liðinu nægir fjögur stig í leikjunum tveimur til að tryggja annað sætið. Það myndi þýða að liðið ynni annaðhvort Nígeríu eða Króatíu og gerði jafntefli í hinum. 

Það er þó ekki eina leiðin til að Íslendingar nái öðru sætinu. Með sigri í dag gæti liðið komist áfram þrátt fyrir tap gegn Króatíu. Ísland myndi þá enda riðlakeppnina með fjögur stig og kæmist áfram svo framarlega sem Argentínumenn myndu ekki vinna Nígeríu of stórt. Hafandi í huga hvað býr í liði Argentínu er þó ekki vænlegt að treysta á slíkt.

Raunar er mögulegt að Ísland gæti komist áfram þrátt fyrir jafntefli í dag og tap gegn Króötum, svo framarlega sem Argentína og Nígería gera jafntefli. Þá myndu liðin þrjú, Ísland, Nígería og Argentína, öll enda með tvö stig og markatalan skera úr um hvert þeirra hreppti hnossið, farmiðann í 16-liða úrslitin.

Samanlagt gefur þetta 53% líkur á að Ísland komist upp úr riðlinum. 25,6% líkur setur HM-hermirinn á 3. sætið en 21,3% á að Ísland lendi neðst í riðlinum.

Möguleikar Argentínu (33,2%)

Messi og félagar hafa farið illa af stað á mótinu, sérstaklega miðað við þær miklu væntingar sem gerðar eru til liðsins sem situr í 5. sæti á heimslista FIFA, þar sem við Íslendingar erum í 22. sæti og Króatar í 20.

Argentína er eina lið riðilsins sem á ekki möguleika á sigri í riðlinum, en liðið getur enn náð öðru sæti. Þriðjungslíkur eru taldar á því. Líklegast þykir að Argentínumenn lendi í þriðja sæti, 45,1% líkur. Þá eru 21,7% líkur taldar á að liðið lendi í neðsta sæti, eitthvað sem hefði talist ótrúlegt fyrir viku síðan.

Möguleikar Nígeríu (13,7%)

Nígeríumenn eru á blaði slakasta lið riðilsins, í það minnsta á blöðum FIFA. Liðið er í 48. sæti á heimslista FIFA, en býr þó yfir nokkrum stórum nöfnum. Fyrirliðinn John Obi Mikel er stuðningsmönnum Chelsea að góðu kunnur og sama gildir um lykilmanninn Victor Moses. Þá má ekki gleyma ungstirninu úr Arsenal, hinum 22 ára Alex Iwobi sem byrjar að öllum líkindum á hægri kanti í dag.

Nígeríumenn geta unnið riðilinn, en til þess þarf mikið að gerast. Liðið þarf að vinna Ísland í dag og Argentínumenn í næstu viku og auk þess að treysta á að Ísland vinni Króatíu. Rætist það enda Króatar og Nígeríumenn jafnir að stigum, með sex stig, og geta Nígeríumenn þá náð efsta sætinu verði markatala þeirra betri en Króata.

Það verður þó að teljast ansi ólíklegt. 0,17% líkur segir hermirinn.

Trúlegra er að liðið hafni í öðru sæti. Á því eru 13,6% líkur. 29,3% líkur eru á að liðið hafni í þriðja sæti, en líklegast þykir að Nígeríumenn verði að sætta sig við neðsta sæti riðilsins. Á því eru um 57% líkur, samkvæmt herminum.

Króatar anda léttar

Það vill gleymast að Króatar eru smáþjóð. Í þessu fyrrum Júgóslavíulýðveldi búa aðeins rúmlega 4 milljónir manna og er þjóðin sú áttunda fámennasta innan Evrópusambandsins. Þrátt fyrir það hefur liðið yfir firnasterkum íþróttaliðum að skipa bæði í fótbolta, körfu- og handbolta.

Króatar eru, sem fyrr segir, öruggir áfram. Langlíklegast þykir að liðið endi í toppsætinu, en á  því eru taldar 85,5% líkur. 

14,5% líkur eru taldar á að liðið hafni í öðru sæti en þá yrði toppsætið annaðhvort Nígeríumanna eða Íslendinga. Þegar hefur verið farið yfir hvernig það gæti gerst að þessar þjóðir nái toppsætinu.

Á hverju byggir HM-hermirinn?

Fjöldi fólks hefur það að atvinnu að reikna með sem nákvæmustum hætti líkurnar á hverri útkomu fyrir sig í fótboltaleikjum, oftar en ekki fyrir veðmálafyrirtæki. Við smíð HM-hermisins var notast við stuðla slíkra veðmálafyrirtækja og þeim snúið yfir í líkur á hverri mögulegri útkomu í þeim þremur leikjum sem eftir eru í D-riðli, allt frá jafntefli til fjögurra (eða meira) marka sigurs hvers liðs.

Vitanlega gefa stuðlar veðmálafyrirtækja ekki raunverulegar líkur á úrslitum. Þeir ofmeta líkur á öllum úrslitum enda gengur viðskiptamódelið út á að bjóða verri stuðla en líkurnar eru í raunveruleikanum og hirða mismuninn. En þar sem stuðlarnir ættu allir að vera teygðir í sömu átt hefur það þó ekki áhrif á innbyrðis líkur á hverjum mögulegum úrslitum.

Þegar líkurnar á hverri útkomu eru þekktar er ekkert að vanbúnaði. 100 milljón hermanir voru framkvæmdar og útkoman úr hverri þeirra skráð. Með öðrum orðum má segja að leikirnir þrír, sem eru eftir í riðlinum, hafi verið „spilaðir“ 100 milljón sinnum, með líkur á hverjum úrslitum í samræmi við töfluna hér að ofan. Tölurnar í fréttinni segja til um hlutfall þeirra hermana sem enduðu með viðeigandi niðurstöðu.

Þannig endaði Ísland til dæmis í toppsæti riðilsins í 14.343.787 hermunum eða um 14,3% tilvika og má því segja að líkurnar á því að Ísland endi á toppnum séu 14,3%. En síðan er auðvitað alþekkt að strákarnir okkar eru öflugri en tölur á blaði og hika ekki við að koma sjálfskipuðum sparkspekingum á óvart.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert