Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu fær gott tækifæri til að stíga stórt skref í átt að sextán liða úrslitum heimsmeistaramótsins þegar það mætir Nígeríu í Volgograd klukkan 15 í dag.
Eftir stórsigur Króata á Argentínumönnum í gær liggur fyrir að annaðhvort Ísland eða Nígería verður í öðru sæti D-riðils að leik loknum og í góðri stöðu til að komast áfram í keppninni.
Um þrjú þúsund Íslendingar verða á leiknum í dag og í þeirra hópi er Evgenía Mikaelsdóttir sem er komin til Volgograd í fyrsta skipti en þar féll afi hennar í síðari heimsstyrjöldinni. Hún fékk endanlega staðfest í gær að borin hefðu verið kennsl á hann en nafn hans er að finna í hvelfingu við stærstu styttu í Evrópu, Móðurlandið kallar, sem er steinsnar frá knattspyrnuvellinum í borginni, að því er fram kemur í viðtali við Evgeníu í Morgunblaðinu í dag.