Hagnaður Bláa lónsins jókst um 32% á síðasta ári og nam 31 milljón evra, jafnvirði 3,9 milljarða króna.
EBITDA, eða hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta, nam 39,3 milljónum evra, jafnvirði ríflega 4,9 milljarða króna og hefur nær tvöfaldast á síðustu tveimur árum. Í fyrra nam EBITDA-framlegðin 28,2 milljónum evra.
Rekstrartekjur Bláa lónsins námu 102,3 milljónum evra í fyrra en það jafngildir tæpum 12,9 milljörðum króna á núverandi gengi. Jukust tekjurnar um 32,4% frá fyrra ári þegar þær námu 77,2 milljónum evra. Rekstrarkostnaður jókst úr 26,2 milljónum evra í 36,6 milljónir sem er jafnvirði 4,6 milljarða króna, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.