Læknar gerðu mistök í Rússlandi

Frændurnir með leigubílstjóranum í eina stoppi bílferðarinnar frá Saratov til …
Frændurnir með leigubílstjóranum í eina stoppi bílferðarinnar frá Saratov til Volgograd. Ljósmynd/Aðsend

Tveir íslenskir læknar starfandi í Svíþjóð gerðu mistök á leið sinni til Volgograd í Rússlandi þar sem þeir ætluðu að sjá íslenska landsliðið í knattspyrnu spila á móti Nígeríu á föstudaginn síðastliðinn.

Eftir að hafa lent í Moskvu ákváðu frændurnir Bergur Stefánsson og Fjalar Elvarsson að skella sér á Rauða torgið og taka nokkrar „sjálfur“ fyrir tengiflugið til Volgograd enda höfðu þeir fimm klukkustundir til stefnu. Það fór ekki betur en svo að þeir misstu af fluginu og fengu þeir þau svör á flugvellinum að engin sæti væru laus í öðrum flugferðum til Volgograd.

„Við lentum á flugvelli norðarlega í Moskvu þannig við þurftum að skipta um völl og höfðum fimm tíma í það. Við hugsuðum með okkur að við tækjum bara leigubíl niður í bæ, það var þannig spölur að það átti ekki að taka nema hálftíma. Þá lendum við í þvílíku umferðarstoppi, það bara gekk ekkert,“ segir Bergur í samtali við mbl.is. „Við vorum svo vitlausir að taka ekki lest.“

Öll flug til Volgograd uppbókuð

Frændurnir náðu loks á flugvöllinn en þá var vélin þeirra farin af stað. Eftir fjögurra klukkustunda árangurslausa leit að ferðum til Volgograd gáfust þeir upp og bókuðu flug til Saratov.

„Maður hélt að þetta væri bara búið þegar maður heyrði að það væri ekki flug eða neitt hægt að gera. En þau voru gríðarlega hjálpsöm þarna. Það var kona sem talaði enga ensku en fólk í kring túlkaði fyrir okkur. Hún leitaði svoleiðis fram og til baka. Þetta tók fjóra klukkutíma frá því að við komum og þangað til hún var búin að finna þessi tvö sæti,“ útskýrir Bergur.

Frændurnir voru þó ekki öruggir að komast á leikinn því að langt er á milli Saratov og Volgograd.

„Við vorum ekkert vissir, þó að við tækjum þetta flug, hvort við næðum á leikinn því þetta eru 400 kílómetrar og við vissum ekkert um umferð eða vegakerfið. Við tókum bara sénsinn.“

Þeir náðu að bóka leigubíl sem beið eftir þeim á flugvellinum en fram undan var kapphlaup við tímann. Í fluginu uppgötvuðu þeir þó að Saratov og Volgograd væru í mismunandi tímabeltum og græddu þeir því auka klukkustund. „Það var enginn smá léttir þegar við komumst að því að við höfðum auka klukkutíma,“ segir Bergur hlæjandi.

Frændurnir báðu leigubílstjórann um að keyra hraðar en fengu þau svör að hann væri hræddur við hraðamyndavélar. „Við spurðum hann hvað sektin kostaði og það var í mesta lagi fimm þúsund rúblur. Við borguðum bara fimm þúsund rúblur aukalega og sögðum honum að gefa í eins og hann vildi. Sem hann og gerði.“

Tók fram úr heilu bílalestunum

Við tók 400 kílómetra bílferð þar sem sem ekkert var stoppað á leiðinni, „nema einu sinni til að pissa“. Leigubílstjórinn tók beiðni þeirra um að stíga á bensíngjöfina bókstaflega og stóð frændunum ekki á sama þegar hann tók fram úr heilu bílalestunum þrátt fyrir að bílar væru að koma á móti.

Þeir náðu þó til Volgograd í tæka tíð og gott betur en það. „Svo vorum við bara komnir tveimur tímum fyrir leik. Við héldum að við þyrftum að fara með draslið okkar beint á völlinn en við náðum að slaka aðeins á, fá okkur bjór og svo vorum við komnir í stemninguna. Þetta bjargaðist,“ segir Bergur, ánægður með bílferðina.

Misstu flugið til baka

Óförum þeirra var þó ekki lokið þá, því daginn eftir kom í ljós að búið var að taka af þeim sætin í flugvélinni til baka frá Volgograd. Þeir fengu þau skilaboð að þar sem að þeir hefðu ekki mætt í fyrri fluglegg þá gætu þeir ekki mætt í þann seinni. „Við þurftum að gjöra svo vel að kaupa okkur nýtt flug til baka.“

„Þetta var orðið svo mikið vesen að við vorum að hugsa um að halda bara áfram og fara til Rostov á næsta leik. Þetta var orðið svo dýrt hvort eð er. En við þurftum að fara í vinnu, annars væri maður ennþá þarna.“

Bergur segir stemninguna hafa verið ævintýralega góða þrátt fyrir að úrslitin hafi verið vonbrigði. Hann segir ólýsanlegt að fá að upplifa slíkan viðburð og að ferðalagið hafi verið þess virði.

Hann er ekki sérstaklega bjartsýnn fyrir leikinn á móti Króatíu en vonar svo sannarlega að strákunum okkar takist að vinna hann. „Þeir geta allt þessir strákar, þeir hafa sýnt það áður,“ bætir Bergur við áður en hann hoppar upp í enn eitt flugið, í þetta sinn frá Stokkhólmi til Gautaborgar, þar sem hann starfar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert