Leggja til friðlýsingu gegn Hvalárvirkjun

Svæðið sem um ræðir er 1.281 ferkílómetri að stærð og …
Svæðið sem um ræðir er 1.281 ferkílómetri að stærð og nær til svæðisins þar sem áætlanir eru uppi um að Hvalárvirkjun rísi. mbl.is/Golli

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur lagt til að svæðið við Drangajökul á Vestfjörðum verði friðlýst og í yfirlýsingu frá Landvernd er tekið undir tillöguna og er umhverfis- og auðlindaráðherra hvattur til þess að leggja nýja náttúruminjaskrá fyrir Alþingi um leið og þinghald hefst í haust.

Svæðið sem Náttúrufræðistofnun leggur til að verði friðlýst er 1.281 ferkílómetri að stærð og nær frá suðurmörkum friðlandsins á Hornströndum og suður um Ófeigsfjarðarheiði. Innan svæðisins er athafnasvæði fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar og er framkvæmdin því í hættu verði Guðmundur Ingi Guðbrandsson ráðherra við tillögunni.

„Sýnt hefur verið að virkjunin muni ekki tryggja Vestfirðingum raforkuöryggi og vegna þeirra minja sem er að finna á svæðinu og víðernaupplifunar mun það geta skapað arðbærari tækifæri verndað en virkjað,“ segir í yfirlýsingu Landverndar vegna málsins. „Einnig skora samtökin á iðnaðarráðherra að styrkja flutningskerfi raforku á Vestfjörðum, sem er raunveruleg forsenda raforkuöryggis Vestfjarða og að uppræta þær blekkingar að Hvalárvirkjun eða aðrar einstakar virkjarnir stuðli að því.“

Í tillögum Náttúrufræðistofnunar, sem settar eru fram í samræmi við lög um náttúruvernd, segir að helsta hættan sem stafi að svæðinu við Drangajökul sé möguleg virkjun vatnsfalla, enda geti hún haft talsverð áhrif á víðerni og ásýnd svæðis auk þess að mögulega raska ákveðnum jarðminjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert