Fyrrverandi lögreglumaður upplifði sig einan í kjölfar þess að hann var ákærður og síðar dæmdur fyrir brot í starfi. Hann gagnrýnir Landssamband lögreglumanna fyrir afskiptaleysi og segir sambandið ekki gæta nægilega vel að hagsmunum lögreglumanna.
Sigurður Árni Reynisson var ákærður og sakfelldur fyrir að hafa farið offorsi í starfi sínu þegar hann átti að flytja fanga fyrir dóm í maí 2016. Landsréttur mildaði dóm Héraðsdóms Reykjavíkur nú í júní og gerði Sigurði að sæta 30 daga skilorðsbundnu fangelsi.
Maðurinn sem Sigurður var dæmdur fyrir að brjóta á skrifaði yfirlýsingu vegna fyrirtöku máls Sigurðar í Landsrétti sem mbl.is hefur undir höndum. Þar biður hann um að Sigurði verði ekki gerð refsing, enda hafi þeir ná sáttum sín á milli. Yfirlýsingin var einnig send yfirstjórn lögreglunnar, en þar kveðst brotaþoli aldrei hafa viljað að Sigurður hlyti atvinnumissi vegna brotsins.
„Sem lögreglumaður heldur maður að maður sé með heilmikið bakland. Síðan þegar maður þarf að takast á við atvinnurekandann og ríkið þá kemur í ljós að baklandið er ekki eins mikið og maður hélt,“ segir Sigurður. Eftir að honum var vikið frá starfi fékk hann eitt símtal frá Landsambandi lögreglumanna (LL) þar sem honum var tjáð að sambandið myndi standa straum af lögfræðikostnaði hans og að hann gæti haft samband ef hann vantaði eitthvað.
Sigurður heyrði ekki meira frá LL fyrr en hann óskaði sjálfur eftir fundi með formanni sambandsins, Snorra Magnússyni. Að sögn Sigurðar hafði Snorri ekki einu sinni lesið dóminn og þegar Sigurður spurði Snorra hvers vegna hann hefði ekki haft samband, þó ekki nema bara til þess að athuga með líðan. „Hann sagði að það væri ekki sitt hlutverk. Ef ég óskaði ekki eftir aðstoð þá væri það ekki hans hlutverk að grennslast fyrir um það.“
„Maður hefði haldið að allir aðilar hefðu verið kallaðir á fund þar sem málin væru rædd, dómurinn reifaður og áhrif hans rædd. Að mér hefðu verið kynnt þau réttindi sem eru til staðar, að ég gæti fengið sálfræðiaðstoð og allt þar fram eftir götunum. Þetta er auðvitað gríðarlegt áfall.“
Sigurður segir eðlilegt að í svona ferli þar sem menn finna fyrir sektarkennd og eru í sorgarferli leiti þeir til sinna nánustu. Það sé erfitt að leita til sambandsins og að til ættu að vera verklagsreglur um einhvers konar ferli sem ætti að fara í gang við aðstæður sem þessar.
Sigurður segir hagsmunagæslu LL takmarkaða. „Sambandið á að vera til staðar fyrir lögreglumenn. Það á að gæta að búnaði og hvort við séum að vinna yfir okkur af yfirvinnu. Það vita allir að álagið á lögregluna er gígantískt. Það er ávísun á mistök, þó ég sé ekki að afsaka sjálfan mig fyrir nokkurn skapaðan hlut. En þetta er raunveruleikinn. Þetta er ítrekað að koma fyrir.“
Að lokum setur Sigurður spurningamerki við það að LL krefjist þess ekki að mál gegn lögreglumönnum séu rannsökuð betur en svo að þeir séu ákærðir og dæmdir fyrir að vera grunaðir um að hafa valdið beinbroti. Í dómi Sigurðar er grunur sagður leika á því að hann hafi rifbeinsbrotið umræddan fanga sem hann átti að flytja. Ekki var gengið úr skugga um það hvort maðurinn væri í raun rifbeinsbrotinn.
„Ég er búinn að vinna sem lögreglumaður síðan 2004 og á mörgum vígstöðvum innan lögreglunnar. Þegar upp kemur grunur um beinbrot er farið fram á áverkavottorð. Það segir sig sjálft, það er ekki hægt að dæma menn fyrir grun. Við getum ekki sótt menn til saka fyrir eitthvað sem við getum ekki staðfest. Ég rek ekki dómsmál gegn einhverjum fyrir að vera grunaður um eitthvað. Annað hvort gerðist þetta eða ekki.“
Þar að auki kemur fram í dómi Sigurðar að maðurinn sem um ræðir hafi verið handtekinn nóttina áður fyrir átök þar sem hnífi var beitt. Landsréttur felldi meðal annars út ákvæði í dómi héraðsdóms um að Sigurður hafi valdið meiðslum á ökkla mannsins þar sem ekki þótti sannað að hann hefði hlotið þau í átökunum við Sigurð. Því segir Sigurður að allt eins megi ætla að meint rifbeinsbrot hafi átt sér stað í þeim átökum. „Ef hann var þá rifbeinsbrotinn.“