„Þetta er kolrangt hjá manninum. Einfaldlega vegna þess að yfir 30 manns hafa haft samband við mig og skrifað undir staðfestingu á því að þeim var tilkynnt það við upphaf vertíðar að þeir yrðu að vera í Stéttarfélagi Vesturlands en ekki Verkalýðsfélagi Akraness.“
Þetta segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, um ummæli Kristjáns Loftssonar forstjóra Hvals hf. Kristján sagði í samtali við mbl.is um helgina að forsvarsmenn Hvals hf. hafi engan skikkað til þess að sniðganga VLFA.
„Þetta er rangt og ósatt. Málið lýtur að því að VLFA fór með mál fyrir Hæstarétt vegna brots á réttindum starfsmanna. Hann skýtur föstum skotum á mig og segir mig ekki vera góða upplýsingaveitu en mínar upplýsingar voru staðfestar af Hæstarétti. Hér er um hefndaraðgerð að ræða af hálfu Hvals hf. og þannig blasir þetta við allri stéttarfélagshreyfingunni. ASÍ, VR, Starfsgreinasambandið og Efling hafa öll tekið undir.“
Þá segist Vilhjálmur hafa sent Hval hf. tölvupóst þann 17. apríl síðastliðinn þar sem hann ávarpar meintan orðróm um að Hvalur hf. hugðist setja starfsmönnum sínum þau skilyrði að sniðganga VLFA en að þeim tölvupósti hafi aldrei verið svarað.
Vilhjálmur segir að alvarleiki málsins sé gríðarlegur. „Málið er grafalvarlegt. Ekki bara er lýtur að VLFA heldur öllum íslenskum vinnumarkaði. Ef atvinnurekendur ætla að haga sér með þeim hætti að ef verkalýðsfélög voga sér að sinna sínum skyldum og vernda réttindi starfsmanna hafi það þær afleiðingar að atvinnurekendur stilli starfsmönnum sínum upp við vegg á þennan hátt.“
„Kristján Loftsson getur ekki undir nokkrum kringumstæðum þvingað starfsmenn sína til að hundsa annað stéttarfélagið. Þetta er brot á lögum um stéttarfélög þar sem skýrt er kveðið á um að atvinnurekendur megi ekki hafa áhrif á val á stéttarfélögum. Lögmaður okkar er núna að skoða leiðir til að stefna Hval Hf. fyrir félagsdóm vegna þessara brota.“
Vilhjálmur segir það vera grundvallaratriði málsins að starfsmenn Hvals hf. hafi sjálfir komið þessum upplýsingum áleiðis til sín og ekki nóg með það heldur hafi Stéttarfélag Vesturlands staðfest að það hafi verið gert að skilyrði að starfsmenn Hvals hf. borguðu stéttarfélagsgjöld til þeirra.
Að lokum nefnir Vilhjálmur að á öllum hvalvertíðum frá árinu 2009 hafi félagsmenn VLFA fengið að vera í félaginu án nokkra athugasemda en núna eftir að dómur Hæstaréttar féll sé búið að meina starfsmönnum að gera slíkt hið sama áfram. „Það er einfaldlega um grófar hefndaraðgerðir að ræða.“