„Ég lít svo á að þarna sé verið að takmarka upplýsingar um rannsóknir í nauðgunarmálum,“ segir Kristín Þorsteinsdóttir, fyrrum aðalritstjóri 365 miðla ehf., og er vonsvikin með dóm Hæstaréttar sem staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli tveggja manna gegn 365 og fjórum fréttamönnum miðilsins.
„Mér finnst þetta vera enn ein atlagan að fjölmiðlafrelsi í landinu,“ segir Kristín. Málið varðar umfjöllun fréttamiðla 365 af ætluðum kynferðisbrotum mannanna tveggja gegn tveimur konum sem áttu að hafa verið framin í október 2015. Mál mannanna voru rannsökuð en þau síðan felld niður. Héraðsdómur gerði fréttamönnunum fjórum, Nadine Guðrúnu Yaghi, Heimi Má Péturssyni, Stefáni Rafni Sigurbjörnssyni og Þórhildi Þorkelsdóttur að greiða mönnunum skaðabætur. Þá voru nokkur ummæli þeirra dæmd dauð og ómerk.
Kristín segir að sér þyki dómararnir þrír hafa tekið afstöðu með þeim sem kærðir voru í nauðgunarmálinu, en í dómnum segir meðal annars að í fámennu og opnu samfélagi eins og á Íslandi sé auðvelt að finna út hverjir eiga hlut að máli.
Mennirnir tveir voru bæði nafngreindir og myndir af þeim birtar á samfélagsmiðlum, en slíkt var ekki gert í fréttaflutningi 365 miðla af málinu. „Við birtum aldrei nöfn þeirra eða myndir af þeim. Mér finnst þessi dómur vera fullmikið á tilfinningalegum nótum.“