Utanríkismálanefnd Alþingis fundaði í morgun um málefni innflytjenda í Bandaríkjunum og útgöngu Bandaríkjamanna úr Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna. Tilgangur fundarins var fyrst og fremst að taka stöðuna og ræða málin.
Innflytjendastefna Donald Trump hefur vakið gríðarlega reiði að undanförnu þar sem börn ólöglegra innflytjenda voru aðskilin foreldrum sínum við landamæri Mexíkó og Bandaríkjanna. Þá var börnunum komið fyrir í sérstökum búðum á meðan foreldrar þeirra voru fangelsaðir og ákærðir fyrir að hafa komið ólöglega inn í landið.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður utanríkismálanefndar, segir að viðbrögð íslenskra stjórnvalda við málinu hafi verið skýr. „Krafa íslenskra stjórnvalda var sú að réttarríki hafi velferð barna alltaf í fyrirrúmi.“
Trump hefur nú afturkallað stefnu sína og lofar að fjölskyldur verði sameinaðar von bráðar, en sautján ríki Bandaríkjanna hafa höfðað mál gegn forsetanum.