„Þessar niðurstöður segja okkur að það eru aðrir kostir mögulegir,“ segir Ingibjörg Birna Erlingsdóttir, sveitarstjóri Reykhólahrepps, í samtali við Morgunblaðið. Niðurstöður úr rýni á tillögum að endurbótum á Vestfjarðavegi, sem norska verkfræðistofan Multiconsult kemst að, voru kynntar á opnum fundi í gærkvöldi, en í niðurstöðunum kemur fram tillaga sem ekki hefur litið dagsins ljós áður. Sveitarstjórn og Vegagerðin höfðu ákveðið að fara svokallaða Þ-H leið en sú ákvörðun hafði mætt andspyrnu, meðal annars vegna þess að leiðin liggur um náttúruverndarsvæðið Teigsskóg, sem hefði orðið fyrir talsverðu raski vegna framkvæmdanna. „Teigsskógur er náttúruverndarsvæði sem nýtur verndar 61. greinar náttúruverndarlaga,“ segir Ingibjörg, en í lögunum stendur m.a. að forðast beri að raska vistkerfum og jarðminjum nema brýna nauðsyn beri til. „Við töldum okkur vera búin að finna þessa brýnu nauðsyn en nú er spurning þegar þessi kostur er kominn sem þarna er lagður fram hvort sá rökstuðningur sé farinn,“ segir Ingibjörg og bætir við: „Þarna er hægt að fara aðra leið sem kostar svipað mikið án þess að fara yfir náttúruverndarsvæði.“
Ásamt því að fara yfir kosti og galla fyrirliggjandi tillaga leggur Multiconsult til að lögð verði brú yfir mynni Þorskafjarðar, milli Skálaness og Reykjaness. Norska tillagan er frábrugðin tillögum sem áður hafa verið kynntar að því leyti að hinn nýi vegur myndi liggja í gegnum Reykhóla um Reykhólaveginn sem þar er fyrir. Þá segir í gögnunum að umbóta væri þörf á nokkrum stöðum á veginum en samkvæmt útreikningum ætti framkvæmdin að kosta um 6,9 milljarða en Þ-H leiðin um Teigsskóg myndi kosta um 6,6 milljarða.
Þá myndi hinn nýi vegur stytta aksturstíma um rúman hálftíma en þær tillögur sem teknar eru fyrir í norsku rýninni gera allar ráð fyrir svipuðum aksturstíma.
Vegagerðin hafnaði fyrir nokkrum árum hugmyndum um að vegurinn yrði lagður í jarðgöngum undir Hjallaháls. Þeim hugmyndum hefur þó verið af sumum haldið á lofti, sérstaklega vegna þess að Teigsskógur yrði þá ekki fyrir hnjaski, og fá þær hugmyndir nokkra athygli í rýninni frá Multiconsult. Þar er m.a. lagt til að stytta jarðgöngin og að þvera Djúpafjörð innar í firðinum. Ingibjörg segir að þrátt fyrir þessa greinargóðu rýni komi þetta ekki til greina. „Hún er eiginlega bara að rökstyðja það hversu dýrt þetta er. Jú, það er hægt að gera styttri göng en þá lengist vegurinn og þeir eru því aðallega að staðfesta kostnaðinn,“ segir Ingibjörg og bætir við að kostnaðurinn við slíka framkvæmd hafi ætíð verið stærsta hindrunin í málinu en einnig að gangagerð taki að jafnaði langan tíma.
Umræða um umbætur á Vestfjarðavegi hefur í áraraðir verið á vörum margra íbúa Reykhólahrepps og fleiri íbúa á Vesturlandi. Eins og áður segir hefur náttúruverndarsvæði Teigsskógur verið helsta þrætueplið, en árið 2008 voru háð tvö dómsmál fyrir Hæstarétti vegna áætlaðra framkvæmda á svæðinu.
Ingibjörg segir að þrátt fyrir að ýmis álitaefni séu uppi um vegaframkvæmdir á svæðinu séu íbúar sammála um eitt; breytinga sé þörf sem fyrst.
„Í upphafi þessarar vinnu [rýnivinnu Multiconsult] vorum við með íbúafund þar sem fólk fékk tækifæri á að koma og hitta ráðgjafana áður en þeir færu af stað. Þá voru þeir bara búnir svona rétt að rýna þetta og vildu fá að heyra frá fólkinu hvað það sæi fyrir sér og þá kom í ljós að það voru allar raddir uppi. Eitt sameiginlegt atriði kom úr fundinum og það var að þetta yrði að gerast strax. Það var eini sameiginlegi punkturinn.“