Lögreglan var kölluð til í Stigahlíð fyrr í kvöld eftir að maður sem dvelur í búsetuúrræði fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd leitaði aðstoðar nágranna vegna áverka sem hann var með. Maðurinn barði þar blóðugur að dyrum og öskraði eftir hjálp.
Þetta segir íbúi í Stigahlíð í samtali við mbl.is en sonur íbúans fór til dyra og hringdi á lögregluna. Íbúinn segir manninn ekki hafa verið alvarlega slasaðan, en hann hafi þó verið fluttur á brott í sjúkrabíl.
„15 ára sonur minn hringdi á lögregluna, en hann var skíthræddur. Þá kom hérna lögreglan og sérsveitin. Það er stutt síðan það gerðist síðast að sérsveitin var hérna í götunni,“ segir íbúinn og vísar þar til atviks sem átti sér stað fyrir rúmri viku síðan. Þá var lögregla og sérsveit kölluð að búsetuúrræðinu, þar sem dveljast allt að sextán einstaklingar sem sótt hafa um alþjóðlega vernd hér á landi. Þrír einstaklingar voru handteknir í þeirri aðgerð.
Íbúinn segir ástandið hafa verið slæmt í götunni síðustu tvö árin, en íbúar hafa ítrekað lýst yfir áhyggjum af aðbúnaði þeirra sem í húsnæðinu dvelja og öryggi í hverfinu.
„Ég hef reynt að kvarta við borgina og tala við lögregluna, en það er ekkert gert. Við fengum reyndar fund með borginni um daginn og mér skilst að þeir ætli ekki að framlengja samninginn í þessu húsi. Þetta er auðvitað ekki boðlegt að í svona íbúðahverfi séu sextán manns, af þremur þjóðernum, í einu einbýlishúsi.“
Íbúi í búsetuúrræðinu sagði í samtali við blaðamann mbl.is á vettvangi að maðurinn hefði verið blóðugur og með áverka á síðunni, en hann vissi ekki hvað hafði gerst. Hann hefði ekki orðið var við nein átök.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu staðfesti við mbl.is að lögregla hefði verið send í Stigahlíð fyrr í kvöld, en vildi ekki gefa frekari upplýsingar um málið.