Borgarráð samþykkti á fundi sínum í gær að Reykjavíkurborg kaupi fasteignir að Arnarbakka 2-6 í Neðra-Breiðholti og Völvufell 11 og 13-21. Hyggst borgin endurlífga þessa hverfiskjarna en jafnframt breyta deiliskipulagi á reitunum. Greiðir borgin rúmlega 752 milljónir króna fyrir fasteignirnar.
Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að við vinnslu hverfisskipulags fyrir Breiðholt hafi komið fram skýrar kröfur íbúa um að fjárfesting ykist í hverfinu og verslunarkjarnar yrðu gerðir upp með það fyrir augum að þar gæti ný og spennandi þjónusta og verslun fest sig í sessi.
Sjálfstæðismenn í borgarráði lögðust gegn kaupunum. Telja þeir uppbyggingu á svæðinu ekki þurfa uppkaup borgarinnar. „Aðkoma borgarinnar á að vera með öðrum hætti en að kaupa húseignir fyrir hátt í þrjú hundruð milljónir sem algjör óvissa er um hvernig nýtast,“ segir í bókun þeirra í fundargerð borgarráðs.
Í Völvufelli hefur Nýlistasafnið m.a. verið til húsa og er húsið sagt bjóða upp á mikla möguleika þar sem það sé í nálægð við Gamla kaffihúsið, pólsku búðina og fleiri verslanir.
Áformað er að byggingarheimildir á umræddum reitum verði auknar og auglýst verði eftir uppbyggingar- og rekstraraðilum. Stefnt er að því að hefja skipulagsbreytingar á lóðunum í kjölfar kaupanna.
„Í Arnarbakka voru eitt sinn fjölbreyttar verslanir og þjónusta en undanfarin ár hefur verið afar lítið um að vera þar. Svipað er uppi á teningnum í Völvufelli en þar í kring hefur samt verið nokkuð lífleg starfsemi,“ segir í tilkynningu borgarinnar.