Hefur aðra afstöðu en kjararáð

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.

Kjararáð er stjórnvald að mati Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, að því er fram kemur í svari ráðherrans við fyrirspurn Björns Leví Gunnarssonar, þingmanns Pírata, sem birt hefur verið á vef Alþingis. Afstaða ráðherrans er önnur en ráðsins sjálfs.

Í svari ráðherrans segir að ráðið sé sjálfstæð stjórnsýslunefnd með úrskurðarvald um kjör tiltekinna æðstu embættismanna ríkisins og teljist því stjórnvald sem njóti sjálfstæðis gagnvart framkvæmdarvaldinu þar sem úrskurðum þess verði ekki skotið til annars stjórnvalds.

Beri að taka afstöðu til upplýsingabeiðni

Mat kjararáðs sjálfs kom í ljós í mars þegar ráðið synjaði beiðni Fréttablaðsins um aðgang að fundargerðum ráðsins frá árinu 2013 til 2017. Í svarinu kom fram að upplýsingalög giltu ekki um ráðið í ljósi þess að það væri ekki stjórnvald í skilningi laga.

Málinu var vísað til úrskurðarnefndar um upplýsingamál sem kvað upp úrskurð sinn á miðvikudag og felldi úr gildi synjun kjararáðs. Í grein Fréttablaðsins í gær kom fram að úrskurðarnefndin teldi kjararáð vera stjórnvald og upplýsingalög ættu því við. Kjararáði beri því að taka afstöðu til upplýsingabeiðni fjölmiðilsins.

Kjararáð var fellt niður við þinglok, 11. júní sl. Í grein Fréttablaðsins segir að ekkert kjararáð verði til eftir það tímamark til að taka afstöðu til málsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert