Halldóra Mogensen, formaður velferðarnefndar Alþingis, segist nú kanna hvernig hún geti beitt sér í kjaradeilu ljósmæðra sem formaður nefndarinnar. Hún segir hafa gengið illa að ná nefndarmönnum saman en samkvæmt þingskaparlögum þurfi allir sitjandi nefndarmenn að samþykkja að nefndin komi saman á meðan þinghlé stendur yfir.
„Það er ekki komið á hreint ennþá hvort það náist að funda eða ekki. Það þarf samþykki allra fundarmanna til að funda á þessum tíma. Það á ekki að funda á þessum tíma nema það teljist vera brýn nauðsyn, sem ég tel vera. En það þarf samþykki allra og ég er bara ekki ennþá búin að fá það samþykki,“ segir Halldóra í samtali við mbl.is.
Hún segir þá stöðu sem uppi er nú í kjaradeilunni alvarlega. „Ég get ekki talað fyrir hönd nefndarinnar, þess vegna þyrftum við að funda. En það sem ég tel mikilvægast, ef nefndin myndi koma saman, væri að fá ráðuneytið og Landspítalann til okkar til þess að útskýra stöðuna. Þar til við höfum þær upplýsingar þá er erfitt að ræða það neitt frekar. En fyrir mitt leyti tel ég þetta vera í höndum framkvæmdarvaldsins, í höndum ráðherra.“
Halldóra segir jafnframt framkvæmdavaldið taka léttvægt á málinu. „Mér finnst bara yfir höfuð ekki brugðist við alvarleikanum á réttan hátt. Mér finnst alveg nauðsynlegt að fjármálaráðherra fari að beita sér fyrir því að finna lausnir á þessu máli. Þetta er algjörlega á hans valdi og á valdi ráðherranna að sjá um það.“
Þá segir hún jafnframt að hún skoði nú hvernig hún geti beitt sér í deilunni sem formaður velferðarnefndar. „Ég er sjálf að athuga hvernig væri best fyrir mig að bregðast við og beita mér. Ég mun gera það núna ef það kemur í ljós að nefndin nái ekki saman um neitt. En fyrst þarf að athuga hvort við náum ekki saman um að funda.“