Í rekstraráætlun Alþingis fyrir þetta ár er gert ráð fyrir að hátíðarfundur Alþingis á Þingvöllum 18. júlí næstkomandi muni kosta 45 milljónir króna.
Á fundinum verður þess minnst að þennan dag árið 1918 undirrituðu Danir og Íslendingar samning um fullveldi og sjálfstæði Íslands sem tók gildi 1. desember það ár.
Þetta kemur fram í svari Steingríms J. Sigfússonar, forseta Alþingis, við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni, þingmanni Pírata. Þar segir að við afgreiðslu áætlunarinnar í upphafi þessa árs lágu ekki fyrir nákvæmar upplýsingar um kostnað við þingfundinn, en áætlað var að kostnaður við hann yrði um 35 millj. kr. og dvöl erlendra gesta, móttökur og annar kostnaður var áætlaður 10 millj. kr. Nú þegar umfang viðburðarins hefur skýrst nánar sé ljóst að kostnaður geti orðið eitthvað meiri en að framan greinir.