Engar áhyggjur af stokknum

Kostnaður við lagningu stokksins er talinn vera um 21 milljarður …
Kostnaður við lagningu stokksins er talinn vera um 21 milljarður króna. mbl.is/Hanna

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segist ekki skilja áhyggjur Eyþórs Arnalds, oddvita Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, um að áform um Miklubraut í stokk séu „að gufa upp“.

Miklabraut í stokk er ekki nefnd sérstaklega í sáttmála meirihlutaflokkanna í borginni, en Dagur segir að í sáttmálanum sé talað um að lokið verði samkomulagi við ríkið um lykilaðgerðir til að létta á umferðinni og stokkurinn sé sú aðgerð sem hefur komið sterkast út í því skyni.

Nýtt rammaskipulag Kringlureitar var samþykkt í borgarráði fyrir helgi en gert er ráð fyr­ir 160 þúsund nýj­um fer­metr­um af húsnæði of­anj­arðar, sem verða blanda af íbúðum, versl­un og þjón­ustu auk menn­ing­ar- og list­a­starf­semi. Eyþór Arnalds sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að útfærsla á gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar, sem Kringlureiturinn stendur við, væri algjörlega óútfærð.

Dagur segir aðspurður að engar ákvarðanir um breytingar á gatnakerfinu í kring hafa verið teknar og ekki liggi fyrir hvort þörf sé talin á þeim. Nýtt rammaskipulag sem samþykkt var í gær taki einungis til svæðisins sjálfs. Hins vegar séu samgöngur snar þáttur í öllu skipulagi og hugað verði að þeim samhliða.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Milli sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og ríkisins er samkomulag um samgönguframkvæmdir og borgarlínu, sem bæði ráðherrar ríkisstjórnarinnar og við hjá borginni höfum talað um að sé mikilvægt að unnið sé að.“

„Það hefur komið út úr frumathugun að það að setja Miklubraut í stokk væri gríðarlega mikilvæg framkvæmd fyrir bæði umferðina og umhverfið, hljóðvist og allt mannlíf á svæðinu,“ segir Dagur og bætir við að hann hafi talað skýrt um mikilvægi framkvæmdarinnar.

„Það er hægt að ráðast í þetta mjög hratt ef sameiginlegur vilji er fyrir hendi og það mun ekki standa á borginni í þeim efnum,“ segir Dagur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert