Ræddu fimm stjórnarskrábreytingar

Þingvellir.
Þingvellir.

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, segir í samtali við mbl.is að fundur formanna stjórnmálaflokkanna um stjórnarskrárbreytingar í gær hafi verið góður og að samræðurnar hafi verið „vonum framar“.

Formenn allra flokka á Alþingi hittust í forsætisráðherrabústaðnum á Þingvöllum í gær til þess að ræða stjórnarskrárbreytingar og stóð fundur fram á kvöld. Unnur Brá Konráðsdóttir, verkefnisstjóri um stjórnarskrármálið og fyrrverandi forseti þingsins, leiddi fundinn.

Rædd voru fimm tiltekin ákvæði. Nánar til tekið auðlindaákvæði, ákvæði um náttúruvernd, þjóðaratkvæðagreiðslur, breytingarákvæði og framsal ríkisvalds í alþjóðlegu samstarfi.

Helgi Hrafn segir engar ákvarðanir hafi verið teknar á fundi formannanna, enda ferlið á byrjunarstigi. Hann segir að einhverjar rökræður hafi myndast en að formenn flokkanna hafi hlustað á sjónarmið hver annars þrátt fyrir að vera efnislega ósammála.

Sannfærð um árangur

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tekur í sama streng og segir í samtali við blaðamann: „Við erum auðvitað búin að funda nokkrum sinnum þessi hópur aðallega til þess að ræða fyrirkomulag vinnunnar og hvernig við sjáum þetta fyrir okkur á þessu kjörtímabili.“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hún segir þetta fyrsta fundinn þar sem farið er í efnislega umræðu og forgangsraðað sé þeim ákvæðum sem mest hafa verið rædd á undanförnum árum og áratug.

„Það eru auðvitað skiptar skoðanir um ýmsa þætti og auðvitað mjög mismunandi milli ákvæða hversu skoðanirnar eru skiptar, en það var góður andi á fundinum og ég hef þá trú að þessi vinna geti skilað ákveðnum áföngum,“ segir Katrín.

Unnur Brá segir í samtali við mbl.is að fundurinn hafi gengið eftir áætlun og að nokkuð sé í að fáist einhver niðurstaða í málinu þar sem verkefninu er ætlað að taka tvö kjörtímabil. Hún segir ekki á hreinu hvenær verði fundað næst enda sé það oft erfitt að finna tíma þar sem allir formenn flokkana geta mætt. Katrín segir að stefnt sé að öðrum vinnufundi í haust.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert