Flugi Primera Air frá Tenerife til Keflavíkur, sem átti að fara klukkan þrjú að íslenskum tíma frá Tenerife, hefur verið seinkað til klukkan tíu í kvöld. Um keðjuverkun er að ræða, en vélin, sem átti að fara frá Keflavík til spænsku eyjarinnar klukkan átta í morgun, er nýfarin í loftið.
Þorgeir Baldursson, fréttaritari Morgunblaðsins, sem er staddur á Tenerife, á ferð með vélinni en hann segist engar skýringar hafa fengið frá fyrirtækinu á seinkuninni. Dóttir hans fylgist vel fylgst vel með gangi mála og hafi séð tölvupóst frá fyrirtækinu um seinkunina áður en þau hugðust fara út á flugvöll. Hann viti þó af öðrum, sem ekki hafi fengið upplýsingar um seinkunina fyrr en komið var á völlinn.
Þorgeir segir dóttur sína hafa rætt lengi við starfsmenn fyrirtækisins í dag og fengið staðfest að flugfélagið muni greiða 150 evra hótelkostnað sem kemur til vegna tafanna.
Ekki náðist í fulltrúa Primera Air við vinnslu fréttarinnar og heimasíða fyrirtækisins liggur í þokkabót niðri.
Uppfært kl. 21:30:
Fluginu hefur verið seinkað á ný og er nú gert ráð fyrir að vélin fari í loftið frá Tenerife klukkan hálftólf í nótt að íslenskum tíma. Ástæða seinkunarinnar nú er að vélin bilaði í Keflavík.