Katrín Sif Sigurðardóttir, formaður samninganefndar ljósmæðra, vonast til að ákvörðun um yfirvinnubann, sem samþykkt var í morgun, komi til með þrýsta á stjórnvöld að fundin verði lausn í kjaradeilu ljósmæðra áður en til verkfallsaðgerða kemur. Annars verði hvorki hægt að halda uppi eðlilegri barneignaþjónustu né tryggja öryggi mæðra og nýfæddra barna.
„Miðað við það sem á undan er gengið þá kemur það manni alltaf á óvart hve lítill áhugi stjórnvalda er á því að takast á við þennan vanda. En við vonum það svo sannarlega því staðan er mjög alvarleg. Ljósmæður munu ekki snúa til starfa og halda uppi þessari barneignaþjónustu að óbreyttu, það er bara þannig,“ segir Katrín í samtali við mbl.is
Uppsagnir 12 ljósmæðra á Landspítalanum tóku gildi í dag og því ljóst að álagið mun aukast til muna á næstu dögum. Þá hafa ljósmæður á öðrum heilbrigðisstofunum víða um land einnig sagt upp.
„Það eru enn að tínast inn uppsagnir og staðan er orðin þannig að þær sem eftir eru geta engan veginn borið uppi óbreytta þjónustu. Ég veit ekki hvernig þetta á að ganga, þannig það verður að koma til móts við okkur.“
Yfirvinnubann var samþykkt með 90 prósent greiddra atkvæða og verkfallsboðun verður borin út á morgun. Aðgerðirnar munu hefjast um miðjan mánuðinn, náist ekki að leysa úr deilunni fyrir þann tíma.
„Ef yfirvinnuverkfallið tekur gildi þá þurfa allar stofnanir þar sem ljósmæður hafa unnið einhverja yfirvinnu í rauninni að vera búnar að búa sér til aðgerðaráætlun til að bregðast við því. Það eru allar stofnanir fyrir utan heilsugæsluna,“ útskýrir Katrín.
„Ég veit satt að segja ekki hvernig þeir ætla að leysa úr því. Mönnunin á mörgum stöðum, kannski þá sérstaklega á Landspítalanum, hefur verið þannig að vaktir hafa verið keyrðar á neyðarmönnun í langan tíma. Sem skýrir svolítið ástandið. Það má ekkert út af bregða, ekki neitt.“
Hún segir til dæmis alla kaffitíma nú greidda á yfirvinnu og skapist strax vandamál. „Fólk verður að fá svigrúm til að taka sína kaffitíma, sem hefur yfirleitt ekki verið. Eða labba út fyrr af vaktinni, sem því nemur. Ég veit ekki hvernig stofnunin ætlar að manna það gap sem myndast bara við það eitt.“
Aðspurð segir Katrín viðbúið að hættuástand geti skapast. „Að sjálfsögðu, það liggur í hlutarins eðli. Frá og með deginum í dag er gríðarlegur skortur á ljósmæðrum. Aðgerðaráætlun Landspítalans tekur gildi og þeir gera auðvitað allt sem þeir geta til að tryggja öryggi sinna skjólstæðinga, en hún hún byggir á því að heimaþjónustuljósmæður taki við konum nánast strax eftir fæðingu. Ég hef hvergi séð að heimaþjónustuljósmæður hafi samþykkt það.“
Aðgerðaráætlunin Landspítalans, sem tekur gildi í dag, byggir einnig á því að valkeisurum verði hugsanlega beint á Akranes og til Akureyrar og að aðrar heilbrigðisstofnanir í nágrenni Reykjavíkur létti á álaginu.
Katrín segir það ekki raunhæft, enda eigi heilbrigðisstofnanir í nágrenni Reykjavíkur einnig eiga erfitt með að taka við fleiri skjólstæðingum vegna manneklu og lokana. „Kragasjúkrahúsin væru örugglega í stakk búin til að taka við þessu fólki ef þau væru fullmönnuð og í fullum rekstri, en það er ekki þannig,“ segir hún og vísar þar til sjúkrahúsanna Selfossi, Akranesi og Keflavík. „Fæðingardeildin í Keflavík verður lokuð allan júlímánuð af því það fæst ekki starfsfólk. Það vantar líka starfsfólk uppi á Skaga og þar er verið að sameina tvær deildir í sumar vegna þess. Ég get ekki séð að þessi aðgerðarátætlun virki. Auðvitað hefur þetta áhrif á öryggi skjólstæðinga, því miður,“ segir Katrín. „Ábyrgðin er þeirra og ábyrgðin er gríðarleg,“ bætir hún við og vísar þar til stjórnvalda.
Katrín segir kröfur ljósmæðra mjög skýrar og þær séu tilbúnar viðræðna hvenær sem er. „Það stendur ekki á því, en samninganefndin þarf að hafa umboð og vilja til að ganga til samninga og það hefur skort. Sem fyrr er það einlæg ósk okkar að ekki komi til þess að við þurfum að beita svona aðgerðum. Að við fáum áheyrn og það verði fundin lausn á okkar málum.“