„Tökum ekki hverju sem er“

mbl.is/Arnþór

Uppsagnir tólf ljósmæðra tóku gildi í dag, 1. júlí. Ljósmæðurnar komu saman við Stjórnarráðið klukkan sex í dag til að leggja skóna sína við dyr hússins; leggja vinnuskóna á hilluna eins og þær orða það. 

Kjaradeila ljósmæðra og ríkisins er í hnút, en ljósmæður samþykktu fyrr í dag yfirvinnubann með 90% greiddra atkvæða og mun það taka gildi um miðjan júlí. Næsti fundur er boðaður  á fimmtudaginn.

María Rebekka Þórisdóttir og María Egilsdóttir eru meðal ljósmæðranna tólf sem segja nú skilið við Landspítalann eftir að hafa lagt inn uppsögn fyrir þremur mánuðum. Þær vonast til að gjörningurinn verði til þess að þeir sem inni sitja, stjórnvöld, hugsi sinn gang og semji við ljósmæður.

Ljósmæður settu vinnuskó sína á tröppurnar við Stjórnarráðið.
Ljósmæður settu vinnuskó sína á tröppurnar við Stjórnarráðið. mbl.is/Arnþór

En hvað tekur við hjá ykkur?

„Maður var náttúrlega alltaf að vona að það yrði samið, en nú verður maður bara að kíkja í kringum sig,“ segir María. Meira liggi ekki fyrir. Þær segjast þó báðar að til greina komi að  snúa aftur til starfa ef tekst að semja. „Það fer þó eftir því um hvað er samið. Við tökum ekki bara hverju sem er þegjandi og hljóðalaust.“

Þær hafa kvatt vinnustaðinn með tákn­ræn­um hætti á sam­fé­lags­miðlum með því að birta mynd­ir af vinnu­skón­um sín­um og starfs­manna­skír­teini og segjast þær all­ar kveðja með mikl­um trega.

„Það er mjög erfitt að segja upp starfinu en ég er stolt af sjálfri mér að hafa gert þetta og haldið út. Ég ætlast til að þetta gangi vel og stjórnvöld semji við okkur. Maður verður að vona að það verði gert hratt og örugglega svo að fjölskyldurnar í landinu þjáist ekki um of,“ segir María.

Aðspurðar segjast þær eiga von á að fleiri ljósmæður fylgi í kjölfarið takist ekki að semja. „Algjörlega. 100 prósent.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert