„Tökum ekki hverju sem er“

mbl.is/Arnþór

Upp­sagn­ir tólf ljós­mæðra tóku gildi í dag, 1. júlí. Ljós­mæðurn­ar komu sam­an við Stjórn­ar­ráðið klukk­an sex í dag til að leggja skóna sína við dyr húss­ins; leggja vinnu­skóna á hill­una eins og þær orða það. 

Kjara­deila ljós­mæðra og rík­is­ins er í hnút, en ljós­mæður samþykktu fyrr í dag yf­ir­vinnu­bann með 90% greiddra at­kvæða og mun það taka gildi um miðjan júlí. Næsti fund­ur er boðaður  á fimmtu­dag­inn.

María Re­bekka Þóris­dótt­ir og María Eg­ils­dótt­ir eru meðal ljós­mæðranna tólf sem segja nú skilið við Land­spít­al­ann eft­ir að hafa lagt inn upp­sögn fyr­ir þrem­ur mánuðum. Þær von­ast til að gjörn­ing­ur­inn verði til þess að þeir sem inni sitja, stjórn­völd, hugsi sinn gang og semji við ljós­mæður.

Ljósmæður settu vinnuskó sína á tröppurnar við Stjórnarráðið.
Ljós­mæður settu vinnu­skó sína á tröpp­urn­ar við Stjórn­ar­ráðið. mbl.is/​Arnþór

En hvað tek­ur við hjá ykk­ur?

„Maður var nátt­úr­lega alltaf að vona að það yrði samið, en nú verður maður bara að kíkja í kring­um sig,“ seg­ir María. Meira liggi ekki fyr­ir. Þær segj­ast þó báðar að til greina komi að  snúa aft­ur til starfa ef tekst að semja. „Það fer þó eft­ir því um hvað er samið. Við tök­um ekki bara hverju sem er þegj­andi og hljóðalaust.“

Þær hafa kvatt vinnustaðinn með tákn­ræn­um hætti á sam­fé­lags­miðlum með því að birta mynd­ir af vinnu­skón­um sín­um og starfs­manna­skír­teini og segj­ast þær all­ar kveðja með mikl­um trega.

„Það er mjög erfitt að segja upp starf­inu en ég er stolt af sjálfri mér að hafa gert þetta og haldið út. Ég ætl­ast til að þetta gangi vel og stjórn­völd semji við okk­ur. Maður verður að vona að það verði gert hratt og ör­ugg­lega svo að fjöl­skyld­urn­ar í land­inu þjá­ist ekki um of,“ seg­ir María.

Aðspurðar segj­ast þær eiga von á að fleiri ljós­mæður fylgi í kjöl­farið tak­ist ekki að semja. „Al­gjör­lega. 100 pró­sent.“

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert