Einn af fjórum með verkfræðigráðu

Bergþóra Þorkelsdóttir er nýr forstjóri Vegagerðarinnar.
Bergþóra Þorkelsdóttir er nýr forstjóri Vegagerðarinnar. Ljósmynd/Stjórnarráð Íslands

Einn fjögurra hæfustu umsækjenda í stöðu forstjóra Vegagerðarinnar var með verkfræðigráðu, en aðrir umsækjendur hafa lokið annars konar námi. Tilkynnt var um skipun Bergþóru Þorkelsdóttur í stöðuna í morgun en hún er dýralæknir að mennt.

Verkfræðingafélag Íslands gerði athugasemd við starfsauglýsinguna í apríl sl. og gagnrýndi að ekki væri krafist háskólamenntunar á meistarastigi, heldur gæti sambærileg starfsreynsla komið í stað menntunar.

„Stjórn VFÍ gerir alvarlegar athugasemdir við að ekki sé gerð krafa um viðeigandi háskólamenntun umsækjenda um starf forstjóra Vegagerðarinnar. Stjórnin lítur svo á að Vegagerðin sé meðal öflugustu tæknifyrirtækja landsins og því sé ekki ásættanlegt [að] í auglýsingu um starf þess sem á að leiða Vegagerðina næstu ár eða áratugi, sé gefið í skyn að reynsla ein sé ígildi menntunar og viðeigandi starfsreynslu,“ sagði í ályktuninni.

Í gögnum sem mbl.is hefur undir höndum frá ráðuneytinu vegna ráðningar Bergþóru kemur fram að meðal fjögurra hæfustu umsækjendanna hafi verið Kristín Linda Árnadóttir, Magnús Valur Jóhannsson og Róbert Ragnarsson. Aðeins einn umsækjendanna, Magnús Valur, er með gráðu í verkfræði. Kristín Linda er lögfræðingur að mennt og Róbert er stjórnmálafræðingur.

Hæfisnefndin sem mat umsækjendurna var skipuð þeim Ara Kristni Jónssyni, rektor Háskólans í Reykjavík, Aðalsteini Ingólfssyni, forstjóra Skinneyjar-Þinganess, og Guðnýju Elísabetu Ingadóttur, mannauðsstjóra samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins.

Vegagerðin að störfum í Vesturárdal.
Vegagerðin að störfum í Vesturárdal. mbl.is/Helgi Bjarnason

Mátu þeir umsækjendur á fjögurra punkta Linkert-kvarða þar sem menntun og stjórnunarreynsla vó 25 prósent, reynsla af rekstri og áætlanagerð 20 prósent og fagleg þekking á samgöngum eða atvinnulífi 15 prósent.

Hæfileikar til að miðla upplýsingum á góðri íslensku í mæltu og rituðu máli vógu 13 prósent, reynsla af stefnumótun 10 prósent sem og reynsla af þátttöku í alþjóðasamstarfi sem vó sömuleiðis 10 prósent. Vægi enskukunnáttu voru fimm prósent og í Norðurlandamáli tvö prósent.

Bergþóra hlaut 365 stig hjá hæfisnefndinni en hin þrjú fengu 356 stig, 348 stig og 346 stig. Ekki kemur fram í gögnunum frá ráðuneytinu hver röðun efstu fjögurra umsækjendanna hafi verið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert