Enskar merkingar í búðargluggum og búðum í miðbænum eru að mati Eiríks Rögnvaldssonar, prófessors í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands, „ein af birtingarmyndum enn stærra vandamáls“.
Í umfjöllun um þróun þessa í Morgunblaðinu í dag segir Eiríkur Íslendinga ekki lengur hafa tilfinningu fyrir því að enskan sé erlent tungumál heldur taki henni sem gefinni. „Hún er orðin svo sjálfsögð í umhverfi okkar og við höfum ekki lengur tilfinningu fyrir því að hún sé gestur eða að hún sé í raun erlent tungumál.“
Hann telur nauðsynlegt að vitundarvakning fari fram um nytsemi íslenskunnar „sem felur í sér að fólk átti sig á því að íslenskan á alltaf við, alls staðar“. Eiríkur hefur þó ekki hugsað sér að fara í stríð við enskuna. „Hún má bara ekki valta alveg yfir íslenskuna.“