Ráðningarferli forstjóra Vegagerðarinnar verður gert opinbert þeim fjölmiðlum sem þess óska. Þetta staðfestir Lilja Alfreðsdóttir, settur samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra í málinu, í samtali við mbl.is, en þegar hefur verið óskað eftir gögnum frá ráðuneytinu. Tilkynnt var um skipun Bergþóru Þorkelsdóttur í embættið í morgun.
Lilja hefur áður talað fyrir gagnsæjum verkferlum innan stjórnsýslunnar. Hún segir að niðurstaða hennar sjálfrar og hæfnisnefndar hafi verið sú sama og að hún sé ánægð að kona hafi verið metin hæfust í starfið. „Ég lagði mikla áherslu þegar ég kom inn í þetta að störf nefndarinnar og það sem kæmi að mér, að það væri fullt gagnsæi í því.“
Lilja var settur ráðherra í málinu vegna vanhæfis Sigurðar Inga Jóhannssonar. Hann sagði sig frá málinu vegna þess að hann og Bergþóra þekkjast, en þau námu saman dýralæknisfræði í Kaupmannahöfn.
„Þegar ég kom að þessu var hæfnisnefndin búin að ákveða að fjórir færu í viðtalið. Ég kynnti mér gögnin mjög gaumgæfilega og tók viðtal við þessa fjóra. Svo gaf ég mér tíma í að meta hvernig ég myndi raða þeim, og það vildi þannig til að mín röðun og hæfnisnefndarinn er sú sama.“
Það var því sameiginlegt álit setts ráðherra og hæfnisnefndar að Bergþóra væri hæfasti umsækjandinn um stöðuna. „Ég er mjög ánægð að hæfasti einstaklingurinn er kona og þetta er í fyrsta sinn sem kona er forstjóri Vegagerðarinnar.“
Athygli hefur vakið að verkfræðimenntunar eða reynslu af verklegum framkvæmdum var ekki krafist þegar embættið var auglýst. Lilja segist ekki hafa komið að þeirri ákvörðun og telur því eðlilegast að þeir sem það gerðu svari fyrir það. Mbl.is hefur sent fyrirspurn þess efnis til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins.