Útskrifa fyrr og mæðrum beint annað

Starfsemi hefur gengið vel á fæðingardeildinni í gær og í …
Starfsemi hefur gengið vel á fæðingardeildinni í gær og í dag en tólf uppsagnir ljósmæðra tóku gildi í gær. Framkvæmdastjóri á kvenna- og barnasviði segir rólegt hafa verið yfir fæðingum á þessum tíma. mbl.is/Golli

Stjórnendur og sérfræðingar á Landspítala funda á átta tíma fresti vegna stöðunnar sem upp er komin á kvenna- og barnasviði spítalans vegna kjaradeilu ljósmæðra og ríkisins. Tólf uppsagnir ljósmæðra tóku gildi í gær og eru mun færri ljósmæður á vakt á meðgöngu- og sængurlegudeild en lágmarksmönnun deildarinnar gerir ráð fyrir.

Útskriftum mæðra og ungabarna hefur verið flýtt og valkeisaraaðgerðum er beint til Heilbrigðisstofnunar Vesturlands á Akranesi til að draga úr álagi á Landspítala. Þá hafa stjórnendur deildarinnar bætt við sig vöktum.

Ljós­mæður samþykktu í gær yf­ir­vinnu­bann með 90 prósentum greiddra at­kvæða og mun það taka gildi um miðjan júlí. Næsti fund­ur er boðaður á fimmtu­dag­inn en alls hafa 30 ljósmæður sagt upp störfum, og enn bætist við. Síðustu uppsagnirnar duttu inn á föstudaginn.

Linda Kristmundsdóttir, framkvæmdastjóri kvenna- og barnasviðs Landspítala.
Linda Kristmundsdóttir, framkvæmdastjóri kvenna- og barnasviðs Landspítala. Ljósmynd/Landspítali

Linda Kristmundsdóttir, framkvæmdastjóri kvenna- og barnasviðs á Landspítala, segir að þetta sé allt gert samkvæmt aðgerðaáætluninni sem var unnin vegna uppsagna ljósmæðra. Líkt og segir ofar hafa tólf uppsagnir tekið gildi en allt í allt hafa 30 ljósmæður sagt upp störfum og dreifast hinar uppsagnirnar á næstu þrjá mánuði.

Von er á 250 til 270 börnum á Landspítala í júlí og segir Linda að yfirleitt sé meira álag á fæðingardeildinni í júlí, m.a. vegna lokana á öðrum heilbrigðisstofnunum vegna sumarleyfa. „Gærdagurinn gekk þokkalega og framan af degi hefur gengið þokkalega,“ segir Linda. „Við höfum verið að meta ástandið frá vakt til vaktar, á átta tíma fresti. Það hefur verið frekar rólegt en við vitum að það getur breyst mjög hratt.“

„Á meðgöngu- og sængurlegudeild keyrum við á 60 prósenta mannskap miðað við lágmarksmönnun deildarinnar,“ segir Linda. „Og stjórnendur deildarinnar, yfirljósmóðir og aðstoðaryfirljósmóðir, hafa bætt við sig vöktum,“ segir Linda.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert