„Ég er guðs lifandi heppin að vera á lífi,“ segir Dolores Mary Foley sem lenti í alvarlegu bílslysi á leið sinni frá Selfossi til Reykjavíkur í janúar síðastliðnum. Dolores vill vekja athygli á mikilvægi vegriða milli aksturstefna og því sem getur gerst séu þau ekki til staðar þar sem þeirra er þörf.
Dolores var við Lögbergsbrekku, einungis komin um 100 metra frá síðasta vegriði, þegar ökumaður á gagnstæðri akrein missti stjórn á ökutæki sínu og fór yfir á vegarhelming Dolores með þeim afleiðingum að ökutækin tvö skullu saman í alvarlegum árekstri. Bæði ökutækin voru á eða undir löglegum hámarkshraða.
Dolores slasaðist alvarlega við áreksturinn og segist verða að minnsta kosti ár að jafna sig. Alls braut hún fjögur rifbein, bringubeinið og hægri sköflunginn auk þess sem innvortis blæðingar urðu miklar. Hún styðst nú við göngugrind og hækjur og segir það fyrir öllu að vera á lífi og að hún sé þeim sem aðstoðuðu á slysstað og starfsfólki Landspítalans ævinlega þakklát.
Dolores segist hafa verið innblásin til að segja sögu sína, af myndbandi sem Samgöngustofa birti í gær þar sem vegrið kemur í veg fyrir að bíll á Hellisheiði þverist yfir á gagnstæða akrein.
Hún vonar að hennar reynsla veki fólk til umhugsunar um mikilvægi þess að veghelmingar séu aðskildir og að vegrið geti bjargað mannslífum. „Ef vegrið hefði verið þarna hefði þetta ekki orðið.“
Á meðfylgjandi myndskeiði hér að ofan má sjá upptöku af árekstrinum.