Velferðarnefnd Alþingis hefur verið kölluð saman og mun hún funda með fulltrúum heilbrigðisráðuneytisins og Landspítalans vegna stöðunnar sem upp er komin í ljósmæðradeilunni í dag. Þá var landlæknir einnig boðaður á fundinn.
Öll nefndin þarf að samþykkja að funda á þessum tíma árs, en að sögn Ólafs Þórs Gunnarssonar, þingmanns Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og varaformanns velferðarnefndar, eru nokkrir nefndarmenn í sumarfríi og munu því ekki sitja fundinn. Hann segir ljóst að staðan sé orðin mjög alvarleg, enda komi nefndir Alþingis sjaldnast saman á meðan þinghald er í sumarfríi.
„Það að nefndin sjái ástæðu til þess að funda utan þingtíma sýnir að nefndin hafi áhyggjur af stöðu mála og vill hafa þær upplýsingar sem eru nýjastar. En auðvitað er nefndin ekki beinn aðili að málinu heldur vill hún vita hvernig spítalinn hyggst bregðast við og auðvitað ráðuneytið.“
Ólafur Þór segir nefndina fyrst og fremst ætla að funda til þess að afla upplýsinga. Þegar mbl.is ræddi við Halldóru Mogensen, þingmann Pírata og formann velferðarnefndar, í síðustu viku sagði hún nefndir ekki funda á þessum tíma nema af brýnni nauðsyn. Þá þótti henni framkvæmdarvaldið taka léttvægt á þessu alvarlega máli.