„Maður byrjar á þessu núna, það er ekkert annað að gera. Við vonum bara það besta,“ segir Ari Páll Ögmundsson, bóndi í Stóru-Sandvík í Árborg. Bændur á Suðurlandi eru farnir að slá tún sín þrátt fyrir bleytu enda, eins og Ari segir, er lítið annað í stöðunni.
Vætutíð í sumar hefur gert það að verkum að Ari hefur lítið getað slegið. Hann segist þó hafa náð góðum degi 20. júní en síðan þá hafi rignt mikið.
„Við byrjuðum aftur í morgun og getum vonandi gert eitthvað fram að helgi en spáin virðist sæmileg,“ segir Ari en veðurspár gera ráð fyrir þurru fram á föstudag á Suðurlandi.
„Það hefur verið rigning meira og minna í allt sumar. Núna förum við á fullt að heya og treystum á guð og lukkuna með það,“ segir Ari sem gerir ráð fyrir því að heyskapurinn verði blautari í ár en venjulega.