55 lekandatilfelli á fimm mánuðum

Fyrirbyggjandi lyfið Truvada sem varnar því að fólk smitist af …
Fyrirbyggjandi lyfið Truvada sem varnar því að fólk smitist af HIV. AFP

Af þeim 55 sem greindust með lekanda þessa fyrstu fimm mánuði var 51 karlmaður (93%). Lekandafaraldurinn er einkennandi fyrir karlmenn sem hafa mök við karlmenn. 34 (62%) þeirra sem greindust voru íslenskir ríkisborgarar.

Fjöldi tilfella af kynsjúkdómum og HIV-sýkingum fyrstu fimm mánuði ársins  er sem fyrr einkum áberandi hvað varðar lekanda og HIV, segir í Farsóttafréttum embættis landlæknis.

Af þeim sextán sem greindust með HIV-sýkingu á þessu tímabili eru þrettán af erlendu bergi brotnir. Einn einstaklingur með þekkta HIV-sýkingu greindist með alnæmi sem rekja má til þess að viðkomandi hafði ekki tekið lyf gegn HIV-sýkingu samkvæmt fyrirmælum, segir í Farsóttafréttum.

Það sem af er þessu ári hafa heldur færri greinst með sárasótt en síðustu tvö árin en engin breyting er á fjölda tilfella sem greinast með klamydíu sem er langalgengasti kynsjúkdómurinn.

Eins og greint var frá í Farsóttafréttum í apríl 2018 er hafin vinna við aðgerðir sem miða að því að stemma stigu við útbreiðslu kynsjúkdóma. „Ljóst er að mikið verk er fyrir höndum við útfærslu allra tillagna starfshópsins og enn ekki ljóst hvenær vinnunni muni ljúka,“ segir í Farsóttafréttum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert