„Þetta er liður í því að opna stjórnsýsluna hjá Reykjavíkurborg. Hún er dálítið lokuð,“ sagði Eyþór Arnalds, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, um sameiginlega tillögu stjórnarandstöðuflokkanna sem rædd verður á borgarráðsfundi í dag.
Í henni er lagt til að dagskrá í ráðum og nefndum á vegum borgarinnar verði gerð aðgengileg á vef Reykjavíkurborgar fyrir fundi.
Í samtali við Morgunblaðið sagðist Eyþór vonast til að samstaða næðist um tillöguna með stjórnarflokkunum í Reykjavík enda hefðu þeir mikið talað um gagnsæi í málflutningi sínum.
Spurð um tillöguna sagðist Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs, fagna tillögum um gagnsæi og sagði umræðu um slíkt tímabæra á Íslandi, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.