„Ísland sker sig úr ef við miðum við beinan ríkisstuðning við einkarekna fjölmiðla á Norðurlöndum á íbúa.“
Þetta segir Lilja Alfreðsdóttir menningar- og menntamálaráðherra sem hefur nú undir höndum drög að áætlun um aðgerðir til að styrkja rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla á Íslandi. Tillögurnar verða þó ekki tilkynntar fyrr en í ágúst eða september, að sögn Lilju.
Áætlunin er unnin með hliðsjón af skýrslu sem fjölmiðlanefnd lagði fram í febrúar sl. Í henni var rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla greint og sjö tillögur að aðgerðum lagðar fram. Lilja segir Ísland ekki eina ríkið sem sé að endurskoða mál einkarekinna fjölmiðla. „Noregur er að fara að auka stuðning sinn verulega við einkarekna fjölmiðla og líka Svíþjóð. Hinar norrænu þjóðirnar hafa styrkt einkarekna fjölmiðla undanfarna áratugi, í Svíþjóð er veittur rekstrarstuðningur sem má rekja til 1990 og í Noregi er fjölbreytt stuðningskerfi,“ segir Lilja í Morgunblaðinu í dag.