Tilkynnt um hvítabjörn á Melrakkasléttu

Fólki er bent á að hringja í 112 ef það …
Fólki er bent á að hringja í 112 ef það telur sig sjá hvítabjörn. AFP

Lögreglunni á Norðurlandi eystra bárust um sjöleytið í kvöld upplýsingar um að síðdegis í dag hafi sést til hvítabjarnar nyrst á Melrakkasléttu eða suður af Hraunhafnarvatni.

Samkvæmt upplýsingum af Facebook-síðu lögreglunnar er ekki búið að staðfesta að um bjarndýr sé að ræða en unnið er að frekari athugun og mun þyrla Landhelgisgæslunnar m.a. fljúga þarna yfir.

Hins vegar er rétt að fólk á þessum slóðum hafi þetta í huga og hringi strax í 112 ef það telur sig sjá hvítabjörn, en reyni ekki að nálgast hann,“ kemur fram í tilkynningu lögreglunnar á Facebook.

Lögreglan á Norðurlandi eystra sagði að veiðimenn hefðu séð til bjarnarins en gat ekki veitt fréttastofu mbl.is nánari upplýsingar þegar eftir því var óskað. Ekki hefur verið haft samband við ferðaþjónustufyrirtæki til að láta ferðamenn vita af möguleikanum á að hvítabjörn kunni að vera á svæðinu en fulltrúi lögreglunnar sagði að hún væri með „ýmsa hluti í skoðun“.

Búið er að láta íbúa í nágrenni Melrakkasléttu vita af því að sést hafi til hvítabjarnar á svæðinu. 

Töluverður straumur er af bílum frá Raufarhöfn á leið á Melrakkasléttu þar sem sást til bjarnarins sagði íbúi Raufarhafnar í samtali við mbl.is.

Tilkynnt var um hvítabjörn nyrst á Melrakkasléttu.
Tilkynnt var um hvítabjörn nyrst á Melrakkasléttu. map.is

Fólk staðsett á svæðinu hefur einnig verið látið vita um að sést hafi til ísbjarnar.




mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert