Hefðu misst stóran hluta vaktaálagsins

Frá samstöðufundi við húsnæði ríkissáttasemjara í dag.
Frá samstöðufundi við húsnæði ríkissáttasemjara í dag. mbl.is/Eggert

Kjaranefnd Ljósmæðrafélags Íslands hefur sent frá sér ályktun eftir árangurslausan fund samninganefnda ljósmæðra og ríkisins í dag. Þar segir að samninganefnd ljósmæðra hafi ekki getað fallist á tillögu ríkisins um breytta vinnutímatilhögun þar sem sú hagræðing hefði einungis náð til mjög lítils hluta ljósmæðra.

„Tilboðið fól í sér að ljósmæður hefðu misst stóran hluta þess vaktaálags sem þær fá fyrir að vinnu utan dagvinnutíma í skiptum fyrir hagræðingu á vinnuframlagi,“ segir í ályktun kjaranefndar, sem segir að í dag hafi krafa ljósmæðra frá síðasta fundi verið ítrekuð.

„Sú krafa felur í sér sömu hækkun og skrifað var undir í lok maí sl. og félagsmenn felldu. Að auki er farið fram á 110 milljónir króna frá velferðarráðuneytinu sem nýtast við gerð stofnanasamninga í þeim tilgangi að leiðrétta launasetningu ljósmæðra. Um yrði þá að ræða alls 170 milljónir á ári sem myndu deilast niður á níu stofnanir, á allar ljósmæður sem starfa eftir kjarasamningi Ljósmæðrafélags Íslands og ríkisins. Þegar allt er tekið saman er um að ræða 17-18% heildarhækkun,“ segir í ályktun kjaranefndar Ljósmæðrafélagsins.

Ályktun kjaranefndarinnar í heild sinni:

„Fundi milli samninganefnda ljósmæðra og ríkisins lauk nú rétt um kl. 16 í dag 11. júlí 2018 án árangurs. Ekki hefur verið boðað til nýs fundar þegar þetta er ritað.

Samninganefnd ríkisins lagði fram tillögu um breytta vinnutímatilhögun sem samninganefnd ljósmæðra gat ekki fallist á þar sem sú hagræðing hefði einungis náð til mjög lítils hluta ljósmæðra. Tilboðið fól í sér að ljósmæður hefðu misst stóran hluta þess vaktaálags sem þær fá fyrir að vinnu utan dagvinnutíma í skiptum fyrir hagræðingu á vinnuframlagi.

Ljósmæður hafa farið fram á leiðréttingu á launasetningu í ljósi mikilla breytinga á inntaki starfsins og auknu álagi á síðastliðnum árum sem ekki hefur verið metið til launa. Ljósmæður hafa raðast neðar í launum en aðrar stéttir hafa gert sem hafa svipaða menntun og ábyrgð í starfi. Á samningsferlinu hefur verið sýnt fram á að ljósmæður lækka alla jafna í launum við það að bæta við sig þeirri tveggja ára menntun sem þarf til viðbótar við hjúkrunarfræði til að fá starfsréttindi sem ljósmóðir.

Ljósmæður lögðu fram kröfu á síðasta fundi, þann 5. júlí sl. sem var ítrekuð í dag. Sú krafa felur í sér sömu hækkun og skrifað var undir í lok maí sl. og félagsmenn felldu. Að auki er farið fram á 110 milljónir króna frá velferðarráðuneytinu sem nýtast við gerð stofnanasamninga í þeim tilgangi að leiðrétta launasetningu ljósmæðra. Um yrði þá að ræða alls 170 milljónir á ári sem myndu deilast niður á níu stofnanir, á allar ljósmæður sem starfa eftir kjarasamningi Ljósmæðrafélags Íslands og ríkisins. Þegar allt er tekið saman er um að ræða 17-18% heildarhækkun.

„Í burðarliðnum barnið er, en Bjarni ræður hvernig fer!“ (úr ræðu Þórdísar Klöru Ágústsdóttur ljósmóður á samstöðufundi 11. júlí 2018)“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert