Sérstakur hátíðarfundur Alþingis fer fram á Þingvöllum á miðvikudaginn í næstu viku, 18. júlí. Á fundinum verður þess minnst að þennan dag árið 1918 undirrituðu Danir og Íslendingar sambandslögin, samning um fullveldi Íslands, sem tók síðan gildi 1. desember það ár.
Forseti Íslands og þingmenn ásamt erlendum sendiherrum munu ganga fylktu liði niður Almannagjá til þess að vera viðstaddir fundinn, sem hefst kl. 14:00.
Þingfundurinn verður með sama móti og fundir á Þingvöllum hafa verið á hátíðar- og minningarstundum í sögu þjóðarinnar. Fundurinn verður undir berum himni á sérstaklega byggðum þingpalli, en á vef Alþingis segir að á þingfundinum sé ætlunin að samþykkja ályktun sem full samstaða er um.
Hafist hefur verið handa við að setja upp hátíðarsvæðið, en Einar Á.E. Sæmundsen þjóðgarðsvörður segir í samtali við Morgunblaðið í dag það sé tveggja til þriggja daga vinna að setja upp pallana fyrir fundinn, en ákveðið var að flytja pallana í þjóðgarðinn með þyrlu til þess að flýta fyrir ferlinu.
Bein sjónvarpsútsending verður frá þingfundinum og öllum landsmönnum gefst þannig kostur á að fylgjast með, þótt allir séu að sjálfsögðu velkomnir á staðinn.
Lögreglan og Vegagerðin hafa gefið út tilmæli um umferð og aðkomu almennings að þingfundinum og leiðbeiningar um hvar æskilegt sé að leggja bílum, en nokkuð verður um lokanir vega og gönguleiða á Þingvöllum vegna hátíðarfundarins.
Frá 08:00-18:00 á degi hátíðarfundarins verður vegi inn að gestastofu, að Haki og bílastæði þar við lokað fyrir almennri umferð. Lokunin verður út við þjóðveg 36. Gönguleiðin frá Haki niður að Lögbergi við Hamraskarð verður einnig lokuð frá 08.00-16:15.
Frá 12:00-18:00 verður einstefna frá gatnamótum við þjónustumiðstöð til suðurs eftir vegi 361 með vatni að Arnarfelli. Vegur að bílastæðum við P2 við Kastala og Öxarárfoss verður með tvístefnu en bílum gert að beygja til suðurs með vatni á gatnamótum við Vallaveg 361.
Veginum inn að Valhallarreit verður lokað fyrir akandi umferð innan við Silfru, þar sem stjórnstöð verður fyrir lögreglu og björgunarsveitir.
Bílastæðamál
Rútur:
Einkabílar:
Einkabílum má leggja á grasflötum neðan við Öxarárfoss og við Furulund. Ef nauðsyn krefur verður einkabílum beint inn á tjaldsvæði við Syðri Leirar sunnan við þjónustumiðstöðina. Gönguleið er um Fögrubrekku frá tjaldsvæðum við Syðri Leirar, en einnig verða rútuferðir á milli tjaldstæða og bílastæði P2 við Kastala.
Gönguleiðir í þinghelgi
Aðgengi verður að Lögbergi og inn í Almannagjá norðan frá um göngustíg frá Kastölum P2 um Almannagjá hjá Drekkingarhyl að Lögbergi. Aðgengi verður að Lögbergi um pallinn og að brekkunni fyrir neðan.
Gönguleið um heimreið að Þingvallabæ frá P2 Kastölum verður opin. Hægt að ganga að kirkju og um stíga austan við Öxará að Öxarárbrú.
Lokuð svæði verða frá Valhallarreit norður að Lögbergi vestan Öxarár og upp að neðri barmi Almannagjár.
Lokað verður fyrir göngustíginn yfir Öxará frá 08:00 -24:00 á hátíðardaginn, en einnig má búast við töfum og lokunum á þeim stíg meðan á undirbúningi stendur viku fyrir hátíðarfundinn og í tvo daga eftir fundinn.
Lögregla stýrir umferð og aðgerðum en meðlimir í björgunarsveitum Landsbjargar og starfsfólk þjóðgarðsins mun einnig vinna að verkefninu.