„Það er náttúrulega afdrifarík ákvörðun fyrir alla þá sem reka verslun og þjónustu utan ár að loka allri umferð á brúnni í svo langan tíma. Það er fullt af fyrirtækjum sem eru hér, fyrir utan á, sem er verið að klippa í sundur,“ segir Einar Björnsson athafnamaður, í samtali við mbl.is, um þá ákvörðun að loka Ölfusárbrú í viku á meðan framkvæmdir á henni standa yfir.
Einar rekur veitingastaðinn Mömmumat og er staðurinn staðsettur fyrir fyrir utan á. Það þýðir að á meðan Ölfusárbrú er lokuð verður ekki hægt að komast á veitingastaðinn nema með því að taka á sig langan krók.
Ákveðið var að loka brúnni alveg á meðan framkvæmdir standa yfir og steypa hana alla í einu til að spara tíma. Það var talið skynsamlegri kostur en að steypa eina akbraut í einu og hleypa umferð yfir sitt á hvað.
Einar og fleiri fyrirtækjaeigendur eru afar óhressir með þessa ákvörðun og ekki síst samráðsleysi en margir þeirra lásu um fyrirhugaða lokun í fjölmiðlum. Allir átta þeir sig þó á mikilvægi þess að laga brúna en telja að betur hefði mátt standa að lokuninni.
„Þetta mun auðvitað hafa mikil áhrif á okkur, mjög svo. Það er verið að kippa okkur úr sambandi nánast,“ segir Einar sem fær að meðaltali um 200 manns í mat til sín á hverjum degi.
Hann útilokar ekki að þurfa loka staðnum í vikunni sem að framkvæmdir standa yfir.
Einar íhugar nú að kvarta til bæjaryfirvalda yfir þessari útfærslu og spyrja þau „hvort ekki væri hægt að gera þetta helming og helming til að halda einhverju streymi í gegn um bæinn.“
Rögnvaldur Jóhannesson, eigandi Bílasölu Selfoss, er einnig afar óánægður með bæjaryfirvöld vegna málsins og telur að lokunin muni hafa talsverð áhrif á rekstur bílasölunnar. Hann frétti fyrst af fyrirhugaðri lokun brúarinnar á vef mbl.is.
„Ég er eiginlega mest hissa á því að hafa ekki fengið neitt hérna inn á borð eða ekki einu sinni tölvupóst til að segja mér frá lokuninni. Ég les þetta bara í blöðunum,“ segir Rögnvaldur í samtali við mbl.is.
Margir aðrir fyrirtækjaeigendur á svæðinu höfðu sömu sögu að segja þegar mbl.is hafði samband við þá. Ekki var haft samband við neinn af þeim í aðdraganda ákvörðunarinnar um að loka brúnni alveg á meðan viðgerð stendur yfir.