„Ríkisstjórnin skal nú gera sér grein fyrir því að öll spjót standa að henni og að ábyrgðin er hennar ef að eitthvað fer úrskeiðis á Landspítalanum.“ Þetta er meðal þess sem kemur fram í fundarboði samtakanna Jæja sem boða til mótmælafundar á Austurvelli á þriðjudag undir yfirskriftinni: „Vaknið ríkisstjórn!“
Upp úr slitnaði í kjaraviðræðum ljósmæðra og samninganefndar ríkisins enn eina ferðina í fyrradag og að öllu óbreyttu hefst yfirvinnuverkfall ljósmæðra á miðnætti 18. júlí. Ljósmæður gera kröfu um 17-18 prósenta launahækkun en Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar ljósmæðra, segir tilboð ríkisins ekki hafa náð 12 prósentum. Ekki hefur verið boðað til nýs fundar í deilunni.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að nýjustu kröfur ljósmæðra væri uppskrift að óstöðugleika, hærri vöxtum og verðbólgu.
Samtökin hvetja fólk til að fjölmenna á mótmælafundinn og gefast ekki upp í kjarabaráttu ljósmæðra og benda á að ríkisstjórnin beri ein ábyrgð á því neyðarástandi sem að skapast hefur á fæðingardeild Landspítalans. „Ríkisstjórnin ber EIN ábyrgð á því að í kjölfarið eru mannslíf beinlínis í hættu og lífi yngstu borgarar landsins, nýfæddra og ófæddra barna teflt á tæpasta vað,“ segir á Facebook-síðu mótmælafundarins á Facebook.
Óljóst er nákvæmlega hver verða áhrif þess að ljósmæður hefja yfirvinnubann en yfirljósmóðir á Landspítalanum á erfitt með að svara því hvort öryggi þeirra sem þangað koma verði ógnað vegna manneklu. 12 ljósmæður sögðu upp um mánaðamótin og segir Linda Kristmundsdóttir, framkvæmdastjóri kvenna- og barnasviðs spítalans, stöðuna vera mjög erfiða.
Verið er að undirbúa neyðaráætlun á Landspítalanum vegna yfirvinnubannsins en núverandi neyðaráætlun, sem hefur verið í gildi síðustu tvær vikur, nær ekki yfir yfirvinnubannið sem hefst í næstu viku.
Mótmælin fara fram sem fyrr segir á þriðjudag og hefjast klukkan 15. Þingfundur hefst á Alþingi klukkan 13:30 sama dag.